Pundið kostar nú 128 krónur en gengi krónunnar hélt áfram að styrkjast í dag, en mest þó gagnvart pundinu, eða um 1,52 prósent. Ástæðan er meðal annars rakin til pólitísks titrings í Bretlandi, en nú styttist í þingkosningar þar í landi og hafa nýjustu kannanir sýnt að bilið milli Íhaldsflokks Thereseu May forsætisráðherra og James Corbyn formanns Verkmannaflokksins í Bretlandi, er að minnka. Gengið verður til kosningar 8. júní.
Samkvæmt könnun YouGov er Íhaldsflokkurinn með 43 prósent fylgi og Verkamannaflokkurinn 38 prósent. May freistar þess með kosningunum að fá betra umboð til þess að leiða landið í samningaviðræðum við Evrópusambandið, vegna útgöngu Breta úr sambandinu.
Frá því almenningur í Bretlandi samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní í fyrra, að Bretland ætti að fara úr Evrópusambandinu, hefur gengi pundsins fallið verulega gagnvart helstu viðskiptamyntum. Breytingin er sérstaklega mikil gagnvart krónunni, enda hefur gengi hennar verið að fara í þveröfuga átt, það er að styrkjast á móti helstu viðskiptamyntum.
Fyrir einu og hálfu ári kostaði pundið 206 krónur og breytingin því mikil á skömmum tíma. Þetta hefur mikil áhrif á fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi, þar sem stærsti einstaki markaður íslenskra sjávarútvegsfyritækja með þorsk er í Bretlandi.
Gengi krónunnar hefur styrkst töluvert á þessu ári gagnvart helstu myntum, og er það áframhald á þróun sem var allt síðasta ár. Bandaríkjadalur kostar nú 100 krónur en var á 140 krónur fyrir rúmlega einu og hálfu ári. Evran kostar 112 krónur en var á 150 krónur fyrir rúmlega einu og hálfu ári.
Mikið gjaldeyrisinnstreymi vegna vaxtar í ferðaþjónustu er ein lykilástæða þess að krónan hefur styrkst mikið, en einnig betri efnahagshorfur og hratt batnandi skuldastaða þjóðarbúsins.
Auglýsing