Jared Kushner, eiginmaður Ivönku Trump dóttur Donalds Trump Bandaríkjaforseta, er sagður hafa óskað eftir því í samtölum við Sergey Kislyak, sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, að leynilegum samskiptum við stjórnvöld í Rússlandi yrði komið á.
Washington Post greindi frá þessu í gær, en samkvæmt heimildum blaðsins bað Kushner um þetta á fundi með Kislyak í Trump turninum við 59. stræti á Manhattan í New York í byrjun desember, eða skömmu áður en Trump tók formlega við sem forseti.
Kushner óskaði eftir því að samskiptalínurnar yrðu lagðar í húsakynnum rússneskra stjórnvalda í Bandaríkjunum til þess að forðast hleranir. Ekki kemur fram í grein Washington Post hvort Rússar hafi orðið við beiðni Kushners. Kislyak er sagður hafa orðið undrandi á hugmyndinni og sagt stjórnvöldum í Kreml frá henni.
Alríkislögreglan FBI vinnur að rannsókn á tengslum framboðs Trumps við Rússa. Einn þeirra sem er miðpunkturinn í rannsókninni er þjóðaröryggisráðgjafinn fyrrverandi, Michael Flynn, en hann hefur meðal annars neitað að afhenda þingnefnd Bandaríkjaþings gögn um viðskiptasamninga sem tengjast Rússum.
Þá beinist rannsóknin einnig að sjálfum dómsmálaráðherranum, Jeff Sessions, en hann átti í tvígang fundi með fyrrnefndum Kislyak í fyrra, í aðdraganda þess að Trump sigraði í kosningunum í Bandaríkjunum.
Hann kom meðal annars fyrir þingnefnd og fullyrti þar, eiðsvarinn, að hann hefði ekki átt í neinum samskiptum við Rússa, sem reyndist rangt, eftir að leyniþjónustan CIA upplýsti um fundina tvo sem hann átti með Kislyak.