Búið er að ganga frá samkomulagi um þinglok á milli þingflokkanna sjö sem eiga sæti á Alþingi. Þetta var gert um helgina. Meðal þess sem mun fara í gegnum þingið er frumvarp um jafnlaunavottun. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir jafnlaunavottun vera mál sem sé í raun og veru ekki tilbúið, en engu að síður fari það í gegn.
Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögfesting á notendastýrðri persónuaðstoð, NPA, eru hins vegar á meðal þeirra mála sem ekki verða kláruð á þessu þingi.
Í viðtali við Fréttablaðið í morgun sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, að afstaða stjórnarandstöðunnar til málanna hafi komið algjörlega á óvart. Hann sagðist ekki trúa því að stjórnarandstaðan ætlaði að bregða fæti fyrir svo mikilvægt mál og það ætti að vera hægur leikur fyrir velferðarnefnd að afgreiða málið fyrir þinglok.
Við upphaf þingfundar í morgun kom Þorsteinn í ræðustól Alþingis og útskýrði orð sín nánar. Hann sagði þá að við samkomulag um þinglok hefði verið ákveðið að geyma málin til haustsins, en samkomulag hefði náðst um að málin myndu bæði hljóta forgangsmeðferð þingsins. „Það er ekkert launungarmál að niðurstaðan olli mér talsverðum vonbrigðum,“ sagði ráðherrann, en að hann treysti því að það muni myndast góð samstaða í haust um það að klára málið.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru óánægðir með ummæli Þorsteins í fjölmiðlum. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði ekki um niðurstöðu samninga að ræða heldur hafi það verið sameiginlegur skilningur allra formanna stjórnmálaflokka, sem funduðu um þinglok um helgina, að málin væru einfaldlega ekki tilbúin. Þingið þyrfti að horfast í augu við raunveruleikann, sem væri sá að Alþingi þyrfti að vanda sig. Allir formenn allra flokka hafi lýst því yfir að þeir væru reiðubúnir að veita málunum brautargengi í haust.
„Það er enginn á móti því að ljúka þessum verkefnum en það vilja allir gera það vel,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann sagðist helst hafa viljað fá afsökunarbeiðni frá ráðherra vegna ummælanna. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók undir, og sagði Þorstein hafa sett stjórnarandstöðuna í þá stöðu að þurfa að verja sig. Enginn sé á móti þessum málum, þau séu einfaldlega ekki tilbúin.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði Þorstein þurfa að biðjast afsökunar ef ekki ætti að ógna því samkomulagi sem nú væri búið að ná um þinglok.
Eldhúsdagsumræður fara fram á þingi í kvöld. Þingfundir verða svo fram á miðvikudag.