Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í ræðu sinni í kvöld, í eldhúsdagsumræðum, að hann væri ekki í nokkrum vafa um það að ef krónan yrði fest við gengi evrunnar, þá myndi útflutningur innan hagkerfisins, t.d. hugbúnaðargerð, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, standa enn betur en raunin er nú.
Hann talaði enn fremur fyrir mikilvægi þess að nýta þann byr sem væri hægt að fá í seglin, með aukinni alþjóðavæðingu og alþjóðasamvinnu. Sagði hann að mörg dæmi væri hægt að nefna úr Íslandssögunni, meðal annars aðildina að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) - sem hefði „leitt Ísland út úr hruninu“ - og einnig aðild að NATO sem hefði tryggt varnir á Ísland um árabil, sem staðfesti mikilvægi alþjóðasamvinnu.
Benedikt talaði fyrir því að Ísland þyrfti að marka sér stöðu í alþjóðavæddum heimi, og horfa til bræðra og systra í Evrópu. Hann sagði nýjan Bandaríkjaforseta, Donald Trump, vera að marka skýrari línu í þessum efnum, með lýðskrumi og auknum boðum, bönnum og tollamúrum. „Í hruninu ýttu Bandaríkjamenn okkur frá sér,“ sagði Benedikt, og benti enn fremur á að við hefðum ekki verið aðildarríki að Evrópusambandinu, og því staðið ein á báti.
Nú þyrfti Ísland að efla tengslin við Evrópu og takast óhrædd á við breytta tíma, því breytingar væru óhjákvæmilegar og ekkert til að hræðast.