Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gagnrýndi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, fyrir að vera stemmningslausa og verklitla, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi, sem nú eru hafnar. Hún líkti ríkisstjórnarstarfinu við stöðuna í eftirpýtum, þar sem þreytan er allsráðandi. „Þetta var eins og kvöld á barnum þar sem menn hafa kannski vakað heldur lengi í von um enn meiri skemmtun seinna. En svo fóru ríkisstjórnarflokkarnir saman heim í eftirpartý sem hefur verið í ætt við önnur slík.. Þegar partýið loksins hefst hefur þreytan náð yfirhöndinni, enginn man lengur væntingarnar frá fyrr í kvöld, fólk syngur kannski þreytulega en ekki í takti, sumir eru svolítið fúlir með að hafa lent í þessu partýi en ekki einhverju öðru. Og húsráðandinn er ekki einu sinni heima. Er þetta nú sanngjarnt, hugsa nú einhverjir, að minnsta kosti ráðherrarnir. En við verðum að meta þetta fyrsta misseri ríkisstjórnarinnar af verkum hennar og líka orðum forsvarsmanna hennar. Það voru ýmis stór mál á dagskrá fyrir kosningar. Viðreisn kom fram sem nýtt afl sem talaði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið og róttækum breytingum á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Einhvern veginn tókst húsráðanda að tala Viðreisnarfólk inn á að geyma sitt stærsta mál þar til seinna – líklega þangað til að tími verður kominn til að hringja á leigubíl og fara heim,“ sagði Katrín í ræðu sinni.
Katrín gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir ríkisfjármálaáætlunina 2018 til 2022 og sagði hana vera lýsandi fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar, þar sem frjálshyggjuviðhorf væru sjáanleg. „Þingmenn og ráðherrar meirihlutans tala um að fleiri krónur renni til ýmissa málaflokka en þegar hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu er skoðað gerir áætlunin ráð fyrir að hún dragist saman – hún er fjarri því að mæta þeim væntingum sem gefnar voru fyrir síðustu kosningar. Og það kemur ekki á óvart þar sem áætlunin boðar enn frekari skattalækkanir ofan á allar þær aðgerðir sem síðasta ríkisstjórn réðst í til að veikja tekjustofna ríkisins. Þetta er allt í anda sömu sem ber mikla ábyrgð á vaxandi ójöfnuði,“ sagði Katrín.
Hún sagði það vera verkefnið framundan að endurreisa velferðarkerfið, ekki síst heilbrigðiskerfið. Þá þyrfti að forgangsraða með meiri jöfnuð að leiðarljósi. Þetta væri ríkisstjórnin ekki að gera. „Við þurfum að endurreisa velferðarkerfið. Það er okkar sameiginlega verkefni; að reka öflugt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar þurfa ekki að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á veikindi vegna of hárrar greiðsluþátttöku. Við þurfum ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi. Fólkið í landinu vill ekki slíkt kerfi, ítrekað hefur það komið fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill félagslega rekið heilbrigðiskerfi sem er vel fjármagnað. Og þetta fengu stjórnmálaflokkarnir allir skýr skilaboð um fyrir kosningar, til dæmis með undirskriftum 86.500 Íslendinga,“ sagði Katrín.