Tilraun Sigríðar H. Anderssen dómsmálaráðherra til að afla sér heimildar Alþingis með tillögu sinni til skipunar í embætti 15 dómara í Landsrétt er „tilraun til ólögmætrar embættisfærslu“, að mati Ástráðs Haraldssonar hrl. og fyrrverandi formanns landskjörstjórnar.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lagt fram tillögu sína að dómurum við Landsrétt, sem á að taka til starfa í byrjun næsta árs. Sigríður leggur til við Alþingi að sjö konur og átta karlar taki sæti sem dómarar. Málið fer til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. „Sú veiting embætta sem liggur fyrir fyrir dómsmálaráðherra er án fordæma. Er augljóslega einstakt að skipa þurfi fimmtán dómara í senn við stofnun nýs dómstóls. Umsækjendur hafa fjölbreyttan bakgrunn. Að mati dómsmálaráðherra er það jákvætt og gefur tilefni til þess að huga sérstaklega að yfirbragði hins nýja dómstóls með tilliti til þeirrar þekkingar og reynslu sem þar verður,“ segir í bréfi Sigríðar til Unnar Brár Konráðsdóttur, forseta Alþingis.
Tillaga Sigríðar er töluvert frábrugðin þeirri tillögu sem dómnefnd lagði fram fyrir ráðherrann fyrr í þessum mánuði. Fjórir einstaklingar, sem nefndin lagði til að yrðu dómarar, komast ekki á lista Sigríðar. Það eru fyrrnefndur Ástráður, Eiríkur Jónsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Jón Höskuldsson. Í þeirra stað koma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir.
Í bréfi sem Ástráður ritar forseta Aþingis í dag segir að þau frávik sem ráðherra geri á tillögu dómnefndarinnar uppfylli á engan hátt kröfur sem gera verði varðandi skipan dómara og sem umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi lagt til grundvallar.
Dæmi um þetta sé þegar að finna í dómi Hæstaréttar í máli Guðmundar Kristjánssonar gegn ríkinu og Árna M. Mathiesen frá árinu 2011, varðandi veitingu embættis héraðsdómara.