Tekjur ríkissjóðs, að meðtöldum fjármunatekjum en að frádregnum fjármagnsgjöldum, voru 200,2 milljarðar króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017. Útgjöld, að frádregnum rekstrartekjum, voru 164,8 milljarðar króna og tekjujöfnuður því jákvæður um 35,4 milljarða króna. Það er tvisvar sinnum meiri tekjujöfnuður en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, sem þýðir á mannamáli að 17,9 milljarðar króna skiluðu sér í ríkiskassann sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum. Þetta kemur fram í ársfjórðungsyfirliti ríkissjóðs fyrir tímabil sem nær frá byrjun janúar og til loka marsmánaðar og birt hefur verið á heimasíðu Fjársýslu ríkisins.
Innheimtar tekjur án fjármunatekna voru 187,4 milljarðar króna, eða 5,7 milljörðum króna hærri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Af þeim 5,7 milljörðum króna sem skilað hafa sér sem viðbótartekjur eru fjórir milljarðar króna skatttekjur.
Fjármunatekjur eru að langmestu leyti þær arðgreiðslur sem ríkissjóður fær frá bönkunum tveimur sem það á að nánast öllu leyti, Landsbankanum og Íslandsbanka. Alls námu þær 26,2 milljörðum króna. Ríkið þarf hins vegar líka að greiða fjármagnsgjöld og þegar þau hafa verið dregin frá fjármagnstekjum stóðu eftir 11,5 milljarðar króna.
Það voru þó ekki bara tekjur sem reyndust meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Útgjöld voru einnig aðeins lægri en reiknað hafði verið með. Þegar búið var að draga rekstrartekjur frá þeim reyndust þau 164,8 milljarðar króna á ársfjórðungnum eða tveimur milljörðum krónum undir áætlun. Megin frávik er vegna samgöngu- og fjarskiptamála sem er 2,1 milljarði króna innan áætlana. Frávik annarra málefnasviða voru töluvert minni.
Í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna þessa segir: „Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 13,7 ma.kr., afborganir lána á námu 58,9 ma.kr.og lækkar handbært fé um 33,5 ma.kr.“
Í uppgjörinu er ekki búið að taka tillit til ýmissa fjárskuldbindinga og krafna sem áfallnar eru á árinu, bæði á tekju- og gjaldahlið, sem ekki hafa áhrif á greiðslur úr ríkissjóði.