Þingnefndir beggja deilda Bandaríkjaþings hafa birt Michael Cohen, lögfræðingi Donald Trump Bandaríkjaforseta, stefnu. Krefjast nefndirnar þess að Cohen „veiti upplýsingar og vitnisburð“ um öll þau samskipti sem hann hafi átt við ráðamenn í Rússlandi, en afskipti Rússa af framboði Trumps, og samskipti við ráðamenn í Bandaríkjunum, eru nú til rannsóknar hjá þingnefndum Bandaríkjaþings.
New York Times segir Cohen hafa staðfest við bandaríska miðla að hann hafi verið beðinn um að veita slíkar upplýsingar, en að hann hafi hafnað beiðninni. Skýring hans var sú að beiðnin hafi ekki verið rétt orðuð og of umfangsmikil, að hans mati. „Ég hafnaði beiðninni um að taka þátt, af því að hún var illa orðuð, allt of umfangsmikil og það var ómögulegt að svara henni,“ sagði Cohen við ABC-sjónvarpsstöðina.
Spjót þingnefndanna beinast líka að Jared Kushner, tengdasyni forsetans, sem sagður er hafa viljað koma á leynilegum samskiptum við yfirvöld í Rússland, í desember í fyrra. Þetta ræddi hann við Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, og einnig ónefndan bankamann sem er sagður trúnaðarmaður Pútíns forseta.
Þingnefndirnar hafa einnig stefnt Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump, en hann hætti störfum 13. febrúar á þessu ári eftir að hafa verið að staðinn að því að segja ósatt um samskipti sín við fyrrnefndan Kislyak.
Lögfræðingar Flynns sögðu hann ekki ætla að afhenda skjöl um samskipti sín við Rússa allt aftur til júnímánaðar árið 2015. Meðal annarra fyrrverandi aðstoðarmanna forsetans sem hafa fengið slíkar beiðnir eru Roger Stone, Paul Manafort og Carter Page.
Þá beinist rannsókn FBI, á tengslum Rússa við framboð Trumps, meðal annars að núverandi dómsmálaráðherra Jeff Sessions, en hann fundaði í tvígang í fyrra með Kislyak, í aðdraganda kosninganna 8. nóvember. Sessions sagði Bandaríkjaþingi, eiðsvarinn, ósatt um samskipti sín við Rússa, eins og frægt er orðið.