Fimm ástæður eru fyrir því að íslenska krónan er orðin sterkari en íslenska hagkerfið ræður við til lengdar. Ísland að líkindum dýrasta land í heimi, laun hérlendis eru með því hæsta sem gerist, afkoma útflutningsgreina fer hratt versnandi, skammtímameðbyr hefur verið með krónunni á síðustu mánuðum og hún er líklega komin yfir jafnvægisraungengi. Þetta er niðurstaða Greiningardeildar Arion banka í greiningu sem birt var í dag.
Greiningardeildin telur þó litlar líkur á því að krónan sé að fara að veikjast mikið á næstunni. Þvert á móti er það hennar mat að krónan muni halda áfram að styrkast.
Líkur á því að krónan verði veikari eftir fimm ár
Til að setja styrkingu krónunnar á undanförnum árum í samhengi þá er breska pundið nú um helmingi ódýrara en það var í ársbyrjun 2013. Þar spilar vissulega inn að íslenska krónan féll skarpt eftir bankahrunið auk þess sem að pundið veiktist umfram aðra gjaldmiðla eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit í fyrrasumar. Styrking krónunnar á sama tímabili hefur þó gert það að verkum að t.d. evran, sem er ein okkar helsta viðskiptamynt, er nú þriðjungi ódýrari en í byrjun árs 2013.
Greiningardeild Arion banka telur að raungengið sé orðið of hátt en með því skapist gott svigrúm fyrir lífeyrissjóði til að auka verulega við erlendar fjárfestingar sínar. Slíkt útflæði myndi enda toga á móti auknu innflæði af gjaldeyri vegna sívaxandi ferðamannastraums til landsins. Í greiningunni segir: „Það má velta því fyrir sér hvort Seðlabankinn hafi verið of fljótur að hægja á gjaldeyriskaupum þar sem krónan hefur styrkst nokkuð hratt frá því í byrjun febrúar. Það er ekki útilokað og gæti verið skynsamlegt fyrir Seðlabankann að gefa aftur í á gjaldeyrismarkaði ef krónan styrkist enn frekar.“
Greiningardeildin telur þó ekki að krónan sé að fara að veikjast mikið á næstunni, heldur muni hún halda áfram að styrkjast hægt og rólega. Líkur á gengisfalli séu að sama skapi litlar. „Við getum þó orðað það þannig að við teljum að líkurnar á því að krónan verði veikari eftir fimm ár vera meiri en líkurnar á því að hún verði sterkari.“
Bjórinn níu sinnum dýrari en í Prag
Í greiningunni kemur fram að verðlag á Íslandi fyrir utan húsnæðisverð sé um 21 prósent hærra en í Noregi. Ferðamenn standi frammi fyrir hlutfallslega mjög háu verði þegar þeir ákveða að heimsækja landið enda sé gisting og veitingar t.d. 29 prósent dýrari hér en í Noregi. Greiningardeildin tiltekur sérstaklega að „bjórgengi“ íslensku krónunnar sé orðið sérstaklega hátt. Einn bjór kostar nú nífalt meira í Reykjavík en í Prag og næstum tvöfalt meira en í London.
Þessi þróun er aðallega tilkomin vegna mikillar styrkingar krónunnar sem hefur gjörbreytt því hversu dýrt Ísland er fyrir útlendinga sem vilja sækja landið heim. Ísland hefur farið frá því að vera ódýrara, miðað við hlutfallslegt verðlag gisti- og veitingastaða, en Danmörk, Finnland, Írland, Noregur, Svíþjóð og Bretland í byrjun árs 2013, yfir í að vera dýrara en öll áður upptalin lönd. Sömu sögu er a segja þegar miðað’ er við hlutfallslegt verðlag menningar og afþreyingar.