Laun á Íslandi virðast almennt vera orðin nokkuð hærri en á hinum Norðurlöndunum. Meðallaun á vinnustund á föstu verðlagi, og mælt í evrum, eru nú rúmlega tvöfalt hærri en þau voru árið 2009. Miðað við spá Seðlabanka Íslands um launaþróun og gengisstyrkingu mun Ísland halda áfram að draga sig frá flestum Evrópulöndum þegar kemur að umfangi launa á næstu árum og vera það land, ásamt Sviss, sem borgar hæstu launin í álfunni. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Arion banka sem birt var í dag.
Ástæðan er samspil mikilla launahækkana á undanförnum árum og mikillar styrkingar krónu, sem hefur styrkst um tugi prósenta gagnvart flestum helstu viðskiptamyntum Íslands á örfáum árum. Þetta samspil hefur leitt til þess að kaupmáttur íslenskra neytenda hefur aukist mjög skarpt. Kaupmáttur meðallauna hækkaði til að mynda um 9,5 prósent á milli 2015 og 2016. Til að setja þá tölu í samhengi var meðalbreyting kaupmáttar síðasta aldarfjórðunginn um 1,8 prósent hækkun á ári. Því var kaupmáttaraukning 2016 rúmlega fimm sinnum meiri en meðaltal síðast aldarfjórðungs.
Á sama tíma þrengist staða atvinnulífsins, enda eykst launakostnaður þess í beinu hlutfalli við launahækkanir. Fyrir þau fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendri mynt, t.d. sjávarútvegur og flest ferðaþjónustufyrirtæki, bætist sú mikla styrking krónu sem át hefur sér stað ofan á.
Lágmarkslaun með því hæsta sem gerist
Í greiningu Arion banka segir einnig að lágmarkslaun á Íslandi séu með því hæsta sem gerist. Af þeim viðmiðunarlöndum sem skoðuð eru í greiningunni er einungis Lúxemborg sem greiðir hærri lágmarkslaun en Ísland. Vert er þó að taka fram að engin Norðurlandanna eru tekin með í samanburði Greiningardeildar Arion banka.
Þegar annar mælikvarði og gögn frá Eurostat og Hagstofunni eru notuð er niðurstaðan mjög svipuð. Laun á Íslandi hafa hækkað mjög mikið á skömmum tíma og eru einungis hærri í Noregi og Danmörku af þeim samaburðarlöndum sem týnd eru til. Árið 2012 voru meðallaun á Íslandi mæld í evrum hins vegar töluvert undir meðaltalinu í Evrópusambandinu og lægri en laun í löndum eins og Ítalíu, Bretlandi og Írlandi.
Greiningardeildin bendir á að þrátt fyrir þessi háu laun hérlendis, þegar þau eru mæld í evrum, sé framleiðni frekar lítil hérlendis. Landsframleiðsla á vinnustund árið 2016, þegar búið var að leiðrétta fyrir kaupmáttarjöfnuði, var undir OECD meðaltalinu og lægri en að meðaltali í Evrópusambandinu.