Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að enginn fjárfestir, hvorki innlendur né erlendur, hafi sett sig í samband við ráðuneyti hans með það í huga að kaupa Keflavíkurflugvöll. Hann segist sjálfur ekki hafa mótað sér afstöðu í málinu enn sem komið er. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.
Greint var frá því í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag að umræður um einkavæðingu Keflavíkurflugvallar hafi leitt til aukins áhuga erlendra fjárfesta á framvindu málsins. Þar er hins vegar haft eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia, að það sé ákvörðun ríkisvaldsins hvort og þá hvernig völlurinn yrði seldur.
Óli Halldórsson, varaþingmaður Vinstri grænna, spurði Benedikt út þennan áhuga fjárfesta á Keflavíkurflugvelli í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun. Benedikt sagði að enginn hafi sett sig í samband við ráðuneyti sitt til að lýsa yfir áhuga á að kaupa flugstöðina, en fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með eignarhlut ríkisins í Isavia, eiganda og rekstraraðila Keflavíkurflugvallar.
Benedikt sagði að hann hafi reynt að kynna sér málið að undanförnu, hvernig eignarhaldi flugstöðva væri háttað erlendis og komist að því að þar sé það oftast nær með þeim hætti að fleiri aðilar en einn eigi flugstöðvar. Þar séu ríki eða sveitarfélög oftast stærstu eigendurnir. Hann hafi hins vegar ekki mótað sér afstöðu til þess hvort selja eigi Keflavíkurflugvöll eða ekki, en hafi þó hlustað af áhuga á umræður um að virði Isavia sé á bilinu 100-200 milljarðar króna. Það sé gott að vita af slíkum varasjóði.
Benedikt sagði enn fremur að sala Keflavíkurflugvallar hafi ekki verið rædd í ríkisstjórn. Hann hafi fyrst heyrt af henni þegar Jón Gunnarsson, ráðherra sveitarstjórnar- og samgöngumála, hafi sagt frá því í sjónvarpsviðtali að vert væri að skoða hugmyndina um að selja völlinn.
Þann 19. maí lagði meirihluti fjárlaganefnd svo til að kannaðir verði kostir þess að eignir ríkisins á Keflavíkurflugvelli verði seldar.