„Svo óendanlega dapurlegt: Sjálfstæðismennirnir fjórir og hann Pawel úr Viðreisn samþykktu í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd tillögu Sigríðar Á. Andersen með hennar geðþóttabreytingar á nýju dómsstigi, þar sem hún fer á skjön við þá sem sjálfstæð hæfisnefnd taldi hæfasta. Þetta er gert án þess að þingmenn geti farið yfir málið á falegum forsendum, án aðgengis að faglegum rökstuðningi frá ráðherra, enda kom í ljós að ráðherrann fór bara eftir eigin skoðunum og telur sig hæfari en fagleg dómnefnd til að meta þetta. Tillagan verður lögð fyrir þingið til samþykktar eða synjunar á eftir. Verður auðvitað samþykkt, því meirihlutinn ræður alltaf :( Munu þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykkja að þetta nýja dómsstig verði sett í framkvæmd undir bikasvörtu spillingarskýji og vantrausti. Mér finnst þetta aðför að réttarríkinu.
Minnihlutinn lagði til að við myndum fá tíma til að fara yfir ábendingar um hvað þarf að kalla eftir en Sjálfstæðisflokkurinn gerir bara það sem honum sýnist enda ræður meirihlutinn alltaf.“
Þannig lýsir Birgitta Jónsdóttir, Pírati, því á Facebook síðu sinni hvernig staðið var að því að styðja tillögu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um skipan 15 dómara við Landsrétt.
Tillaga Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, um skipan dómara við Landsrétt var afgreidd í ágreiningi úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Meirihluti nefndarinnar styður tillögu ráðherrans en minnihlutinn vildi fá meiri tíma til að fara yfir málið og var því ekki sáttur við að málið skyldi afgreitt úr nefndinni í dag.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær, þá mat hæfisnefnd um mat á umsækjendum í stöðu dómara við Landsrétt Davíð Þór Björgvinsson, Sigurð Tómas Magnússon og Ragnheiði Harðardóttur hæfust.
Samkvæmt lista hæfisnefndarinnar var Ástráður Haraldsson hrl., sem hefur talið tillögu dómsmálaráðherra lögbrot - líkt og Lögmannafélag Íslands - númer 14 á listanum. Einn þeirra sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, gerir tillögu um að verði á meðal 15 dómurum við Landsrétt er Jón Finnbjörnsson en hann er númer 30 á lista hæfisnefndarinnar. Þá er Eiríkur Jónsson númer 7 á lista hæfisnefndarinnar, en hann er ekki á meðal þeirra 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara.
Ástráður Haraldsson og Eiríkur Jónsson, ásamt Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Jóni Höskuldssyni hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans heldur þau Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.
Þau 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara við Landsrétt eru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.