„Vá. Þetta skjal átti alls ekki að koma fyrir sjónir almennings. Vandinn nú er sá að ef einhver önnur niðurstaða verður en þessi röð sem matsnefndin lagði upp með, og sú niðurstaða ekki algjörlega rökstudd þannig að allur vafi yrði tekin af og afgreidd í fullri sátt, þá mun vera afar erfitt fyrir suma dómara við Landsrétt að starfa með það traust sem gerð er krafa um til dómstóla.“
Þetta segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata, á Facebook síðu sinni, og vitnar til fréttar Kjarnans frá því í gær, þar sem gögn hæfisnefndar um mat á hæfi umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt voru birt. Hann segir jafnframt að það sé í sjálfu sér ekki slæmt, að gögn séu gerð opinber, en úr því ferlið var lokað í upphafi þá hafi þetta ekki átt að gerast.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í gærkvöldi eru Davíð Þór Björgvinsson, Sigurður Tómas Magnússon og Ragnheiður Harðardóttir, þrjú hæfust að mati hæfisnefndar um mat á umsækjendum um starf dómara við Landsrétt. Davíð Þór var með einkunnina 7,35, Sigurður Tómas 6,775 og Ragnheiður 6,65, samkvæmt gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum og birt voru með fréttinni í gærkvöldi.
Samkvæmt lista hæfisnefndarinnar var Ástráður Haraldsson númer 14 á listanum. Einn þeirra sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, gerir tillögu um að verði á meðal 15 dómurum við Landsrétt er Jón Finnbjörnsson en hann er númer 30 á lista hæfisnefndarinnar. Þá er Eiríkur Jónsson númer 7 á lista hæfisnefndarinnar, en hann er ekki á meðal þeirra 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara.
Fyrrnefndir Ástráður Haraldsson og Eiríkur Jónsson, ásamt Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Jóni Höskuldssyni hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans heldur þau Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.
Þau 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara við Landsrétt eru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.