Búið er að ráða fjóra umsjónarmenn fyrir nýjan fréttaskýringaþátt sem hefur göngu sína á RÚV í október. Þátturinn verður sýndur á þriðjudagskvöldum og undirbúningur fyrir hann stendur yfir. Í þættinum verða innlendar og erlendar fréttaskýringar, rannsóknarblaðamennska og prófílar. Ritstjóri þáttarins verður Þóra Arnórsdóttir en aðrir umsjónarmenn verða Helgi Seljan, Ingólfur Bjarni Sigfússon og Sigríður Halldórsdóttir.
Auglýst hefur verið eftir dagskrárframleiðanda og vefritstjóra þáttarins og rennur umsóknarfrestur út á mánudag. Samkvæmt tölvupósti sem Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, sendi á starfsfólk hefur þátturinn ekki fengið nafn en efnt verður til hugmyndasamkeppni innan RÚV til að finna nafnið.
Í póstinum kemur einnig fram að Kastljós muni taka breytingum samhliða þessu. Þátturinn verði viðtalsþáttur í beinni útsendingu og umsjón verður í höndum Baldvins Þórs Bergssonar og Helgu Arnardóttur sem ætla að bjóða upp á fjölbreytta fréttatengda umræðu.
Hið nýja Kastljós verður styttra en það sem er nú og menningarumfjöllun verður áfram hluti af þættinum. Nýtt Kastljós hefst mánudaginn 14.ágúst.