Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, vill að umhverfisgjald verði lagt á þá sem prenta fríblöð eða frípóst sem dreift er inn á heimili landsmanna án þess að beðið sé sérstaklega um það. Þetta kemur fram í svari hennar við i fyrirspurn á Alþingi um fjölpóst sem birt var í gær.
Í fyrirspurninni var Björt meðal annars spurð hvort hún teldi eðlilegt að viðtakendur fjölpósts beri kostnað af förgun þess pappírssorps sem af honum leiðir? Í svari sínu sagði ráðherrann: „Nei, ráðherra telur það ekki eðlilegt að viðtakendur fjölpósts beri kostnað af förgun þess pappírssorps sem af honum leiðir. Í samræmi við mengunarbótaregluna væri eðlilegra að framleiðendur fjölpósts bæru kostnað af úrvinnslu hans, þ.e. að koma honum í endurvinnslu eða endurnýtingu. Væri settur hagrænn hvati til endurvinnslu fjölpósts, t.d. úrvinnslugjald, yki það magn þess sem færi til endurvinnslu en óljóst er hvort það drægi úr magni fjölpósts sem myndast.“
Björt segir enn fremur að engin umhverfisgjöld séu nú lögð á fjölpóst hérlendis en að hún hafi hug á að innleiða mengunarbótaregluna í auknum mæli vegna fjölpósts og sé það mál til skoðunar. Umhverfisstofnun hafi hins vegar ekki haldbærar upplýsingar um magn fjölpósts og fríblaða sem hent sé og hafi því ekki reiknað út endurvinnsluhlutfall þess.
Tugmilljóna kostnaður
Kjarninn fjallaði um kostnað sem fellur til vegna urðunar á dagblaða- og tímaritapappír á ári í frétt sem birtist í mars 2014. Þar kom fram að samkvæmt svörum frá SORPU kostaði urðun á dagblaða- og tímaritapappír allt að 45 milljónir króna á ári þrátt fyrir blátunnu, grenndargáma og endurvinnslustöðvar. Ári síðar mat SORPA kostnaðinn allt að 30 milljónir króna á ári.
Þessi kostnaður lendir beint á skattgreiðendum á höfuðborgarsvæðinu sem eiga og reka SORPU. Sveitarfélögin niðurgreiða því útgáfu dagblaða og tímarita um þessa upphæð á ári hverju.
Uppistaðan í pappírsruslinu sem þarf að urða eru fríblöð eða frídreifing á öðrum dagblöðum. Langstærsta fríblað landsins er Fréttablaðið, sem er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar. Morgunblaðið hefur auk þess stóraukið frídreifingu sína á undanförnum árum.
Lestur dagblaða hríðfellur
Gera má ráð fyrir að sú upphæð sem skattgreiðendur greiddu óbeint fyrir urðun á fríblöðum og tímaritum hafi hækkað umtalsvert á árinu 2016 þegar Fréttatíminn, sem kom út í 83 þúsund eintökum, fjölgaði útgáfudögum sínum fyrst úr einum í tvo á viku, og svo úr tveimur í þrjá. Ruslið sem varð til vegna Fréttatímans tvöfaldaðist því hið minnsta.
Fréttatíminn fór hins vegar í rekstrarþrot í byrjun apríl síðastliðins og hefur ekki komið út síðan þá. Hverfi hann alfarið af fríblaðamarkaði mun það magn af fríblaðapappír sem þarf að endurvinna eða urða óhjákvæmilega dragast saman.
Fréttatíminn var með 31,5 prósent meðallestur á tölublað samkvæmt prentmiðlamælingum Gallup. Brotthvarf hans af markaði hefur hins vegar ekki aukið lestur neinna aðra prentmiðla. Þvert á móti hefur lestur þeirra haldið áfram að dragast saman.
Lestur á fríblaðinu Fréttablaðinu fór t.d. í fyrsta sinn undir 45 prósent í apríl síðastliðnum. Hjá landsmönnum á aldursbilinu 18-49 ára er lesturinn enn minni, eða 36,9 prósent. Þegar best lét árið 2010 lásu um 64 prósent landsmanna Fréttablaðið og hlutfall lesenda undir fimmtugu var nánast það sama, eða 63,75 prósent.
Lestur Morgunblaðsins mælist nú 25,8 prósent, sem er minnsta lestri sem blaðið hefur nokkru sinni mælst með. Til samanburðar má nefna að í maí 2006 lásu 54,3 prósent Morgunblaðið. Lesendur Morgunblaðsins eru því rúmlega helmingi færri en þeir voru fyrir um áratug síðan. Hjá aldurshópnum undir 50 hefur staðan versnað enn meira. Þar lesa einungis 15,2 prósent blaðið.
DV tilkynnti nýverið að það hefði fækkað útgáfudögum úr tveimur í einn vegna rekstrarvandræða. Blaðið kemur nú einungis út um helgar. Lestur þess hefur haldist mjög lítill á undanförnum árum og mældist 7,2 prósent í apríl, sem er við lægstu mörk sem hann hefur mælst. Einungis 5,1 prósent Íslendinga undir 50 ára lesa DV.