Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segist vera ánægður með rökstuðning Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra fyrir því að víkja frá mati hæfisnefndar um skipun dómara við Landsrétt. Það sé ekki hlutverk Alþingis eða alþingismenna að vera ný matsnefnd eða taka ákvörðun um það hverja skuli skipa í Landsrétt.
„Ráðherra ber ábyrgð á skipun í dóminn,“ sagði Óttarr. Það væri hlutverk þingmanna að samþykkja eða hafna tillögu ráðherrans. Því væri það þeirra að ákveða hvort þeir séu sáttir við þann rökstuðning sem ráðherra komi með fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það sé hann.
Óttarr nefndi sérstaklega kynjasjónarmið í ræðu sinni og sagði það fagnaðarefni og gott veganesti að nú yrðu kynjahlutföll jöfn í dómstól. Það hafi verið honum áhyggjuefni þegar upphaflegi listinn „lak út núna á vordögum“ hvað það hafi hallað á konur. „Ég hef tekið undir það með öðrum vítt og breitt úr hinu pólitíska landslagi að það hafi verið allavega ástæða til að skoða það sérstaklega. Ég fagna því sérstaklega í tillögu hæstvirts ráðherra.“
Þá sagði Óttarr að það væri því miður ekki útlit fyrir að hægt væri að ná einhverri breiðri, pólitískri sátt um málið. Það sé nokkuð djúpstæður ágreiningur um það.
Hann sagðist taka undir meirihlutaálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en meirihlutinn lagði til að tillaga Sigríðar yrði samþykkt.
Greidd verða atkvæði um málið um klukkan 17 í dag.