Meirihluti Alþingis samþykkti tillögu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um skipan 15 dómara við Landsrétt. Stjórnarandstaðan var öll á móti tillögu ráðherra. Þingmenn meirihlutans, 31, kusu með tillögunni en 22 þingmenn stjórnarandstöðu voru á móti, átta greiddu ekki atkvæði, og tveir voru fjarverandi.
Fyrst var frávísunartillaga felld, 31 - 30, sem gerði ráð fyrir meiri málsmeðferðartíma tillögu ráðherra, en svo var tillaga ráðherra samþykkt, 31 - 22.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu tillögu Sigríðar vera alveg órökstudda, en sem kunnugt er voru gerðar fjórar breytingar á lista hæfisnefndar um mat á umsækjendum. Stjórnarandstaðan sagði breytingartillögu Sigríðar órökstudda og að það þyrfti lengri tíma til að fara yfir málið.
Birgitta Jónsdóttir, frá Pírötum, sagði í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar að valið með henni væri skýrt. „Nú kjósum við um gamla Ísland, eða nýja Ísland,“ sagði Birgitta, og horfði til þingmanna í salnum. Margir þingmanna Pírata stigu í ræðustól, og sögðu með þessari málsmeðferð þá væri verið að skapa vantaust á dómskerfinu.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans, þá mat hæfisnefnd um mat á umsækjendum í stöðu dómara við Landsrétt Davíð Þór Björgvinsson, Sigurð Tómas Magnússon og Ragnheiði Harðardóttur hæfust.
Samkvæmt lista hæfisnefndarinnar var Ástráður Haraldsson hrl., sem hefur talið tillögu dómsmálaráðherra lögbrot - líkt og Lögmannafélag Íslands - númer 14 á listanum. Einn þeirra sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, gerir tillögu um að verði á meðal 15 dómara við Landsrétt er Jón Finnbjörnsson en hann er númer 30 á lista hæfisnefndarinnar. Þá er Eiríkur Jónsson númer 7 á lista hæfisnefndarinnar, en hann er ekki á meðal þeirra 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara.
Ástráður Haraldsson og Eiríkur Jónsson, ásamt Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Jóni Höskuldssyni hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans heldur þau Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.
Þau 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara við Landsrétt eru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
Svandís Svavarsdóttir, VG, og Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, voru ekki viðstödd atkvæðagreiðsluna, vegna tengsla við umsækjendur um starf dómara við Landsrétt.