Þingmenn Pírata telja að Alþingi hafi brotið lög með því að kjósa um alla 15 dómarana við Landsrétt í einu lagi. Þetta kemur fram í máli bæði Jóns Þórs Ólafssonar og Björns Leví Gunnarssonar, þingmanna Pírata, á Facebook.
Jón Þór segir að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verði að vera viss um þessi mál áður en hann skrifi undir tillögu ráðherra, sem Alþingi samþykkti í gær. „Forseti Íslands er síðasti öryggisventillinn í þessu máli. Hann getur neitað að skrifa undir og þá þarf þingið að vinna málið aftur.“
Jón Þór segist vera búinn að hringja í forsetann og fá þau svör að Guðni hringi í hann síðar í dag.
Björn Leví bendir einnig á lagagreinina, sem þeir telja að sýni að þingið hefði átt að greiða atkvæði um hvern og einn dómara fyrir sig. Í bráðabirgðaákvæði laga um dómstóla segir: „Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.“
Því hafi Sjálfstæðisflokkurinn klúðrað kosningunni, að mati Björns Leví. „Því ætti ekki að vera búið að kjósa dómara enn. Það er enn tækifæri til þess að bjarga þessu.“