Bandaríkjadalur kostar nú 97,2 krónur og hélt gengi krónunnar áfram að styrkjast gagnvart helstu viðskiptamyntum í dag, líkt og raunin hefur verið allt þetta ár. Raungengi krónunnar, að teknu tillit til verðlagsþróunar, er nú sterkara en það var árið 2007 og útlit fyrir að frekari styrking sé í kortunum, þar sem mikið gjaldeyrisinnstreymi fylgir háannatíma í ferðaþjónustunni, sem er á næstu þremur mánuðum.
Heildartekjur af þjónustuútflutningi á fyrsta ársfjórðungi 2017 voru, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands, 125,8 milljarðar króna en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu 82,8 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 43,1 milljarð króna en var jákvæður um 29,9 milljarða á sama tíma árið 2016 á gengi hvors árs. Þarna munar mestu um vöxt í ferðaþjónustu.
Á hlutabréfamörkuðum í dag var töluverð rússíbanareið, en markaðsvirði allra félaga í kauphöllinni lækkaði en mesta lækkunin var á bréfum í Högum. Bréf félagsins lækkuðu um rúmlega 3 prósent og markaðsvirði þessa stærsta smásölufyrirtækis landsins - að undanskildu risanum Costco vitaskuld - 59,7 milljarðar króna.
Gengi krónunnar gagnvart pundinu hélt áfram að styrkjast, og kostar pundið nú 125 krónur, en fyrir tæplega ári síðan, fyrir Brexit kosninguna, þá kostaði pundið 206 krónur. Mikil breyting hefur því orðið á skömmum tíma. Þetta kemur sér illa fyrir íslenskan útflutning, einkum sjávarútvegsfyrirtæki, en Bretland er stærsta einstaka viðskiptaland okkar fyrir þorsk.