Ástráður Haraldsson hrl. hyggst leita réttar síns fyrir dómstólum vegna þeirrar ákvörðunar Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra að skipa hann ekki dómara við Landsrétt. Hæfisnefnd mat hann einn af 15 hæfustu umsækjendunum og mælti með honum í starfið, en hann var númer 14 í mati nefndarinnar.
Í viðtali við Fréttablaðið í dag segist hann ætla að stefna ríkinu og dómsmálaráðherra.
Í viðtalinu segir hann að það sé óumdeild regla íslensks stjórnsýsluréttar að ráðherra sé bundinn að því að skipa hæfasta umsækjandann í embætti hverju sinni.
„Ég geri mér grein fyrir því að þetta mun taka á. Sá sem lendir í stöðu eins og þessari og þarf að takast á við stjórnvöld út af því gerir það að ekki að gamni sínu,“ segir Ástráður.
Umsækjendur sem einnig voru á meðal 15 efstu á lista hæfisnefndarinnar, en voru ekki í lokahópi ráðherra, Jón Höskuldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, segjast báðir vera að íhuga að höfða mál.
Á vef Kjarnans í gær voru birtar ítarlegar upplýsingar um mat á hæfi umsækjenda. Dómararnir sem dómsmálaráðherra gerði tillögu um voru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.