Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, segir að allir sem koma að skipan dómara ættu að hugsa sinn gang eftir Landsréttarmálið. Þetta kom fram í viðtali við Skúla í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Skúli segir einnig að dómsmálaráðherra ætti að hafa svigrúm til mats þegar verið sé að skipa fimmtán nýja dómara eins og nú var tilfellið. „Svo er það annað mál hvernig ráðherra ber þá að standa að slíku fráviki og hvort að þá mat ráðherra getur talist ólögmætt.“
Skúli bendir einnig á að nefndin hafi ítrekað verið gagnrýnd fyrir að raða umsækjendum of stíft upp á lista. „Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að þarna standi 15 umsækjendur framar öðrum þannig að ráðherra hefur ekkert svigrúm til mats. Þegar um er að ræða skipun 15 nýrra dómara og það á að manna heilan dómstól frá grunni og þá hlýtur það óneitanlega að teljast umhugsunarefni,“ segir Skúli. Þegar verið sé að manna heilan nýjan dómstól komi fram ýmis sjónarmið um fjölbreytileika.