Eftir margra ára hægagang, í kjölfar fjármálakreppunnar á árunum 2007 til 2009, hafa hagtölur á Evrusvæðinu batnað jafnt og þétt, en gögn sem breska ríkisútvarpið BBC vitnar til sýna að vöxtur í hagkerfum heldur áfram að vera stöðugur.
Samkvæmt skoðanakönnun IHS Markit, þar sem innkaupastjórar fyrirtækja eru spurðir út í horfum í rekstri, eru efnahagshorfur nokkuð góðar fyrir næstu mánuði, og tæplega eitt prósent hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi þessa árs virðist vera í kortunum.
Það kann að hljóma lítið fyrir einhverjum, en er staðfesti á því yfir 40 mánaða hagvaxtarskeiði innan evrusvæðisins. Greinandi IHS segir í viðtali við BBC að þetta séu góðar fréttir fyrir svæðið, en vöxturinn er drifinn áfram af vaxandi efnahagsumsvifum í Þýskalandi og Frakklandi, stærstu iðnríkjum evrusvæðisins.
Í febrúar síðastliðnum greindi FT frá því í umfjöllun sinni að efnahagsbatinn í Evrópu - 500 milljóna íbúa markaðssvæði - væri í reynd „hljóðlát bylting“, því óhætt væri að segja að hann hefði ekki stolið fyrirsögnum. Á þeim tíma hafði mælst hagvöxtur á evrusvæðinu í fjórtán ársfjórðunga í röð, atvinnuleysi haldið áfram að minnka og farið undir 10 prósent, og viðhorf gagnvart hagkerfinu ekki verið jákvæðara í sex ár.
Eins og mál horfa við nú, virðist vera framhald á þessari þróun og efnahagsbatinn staðfestur í 15 ársfjórðunga í röð. Seðlabanki Evrópu hyggst halda áfram örvunaraðgerðum sínum, en bankinn hefur keypt skuldabréf á markaði fyrir um 60 milljarða evra í hverjum mánuði, með það að markmiði að örva hagvöxt, undanfarin þrjú ár.
Þrátt fyrir það hefur Mario Draghi, forseti stjórnar Seðlabanka Evrópu, sagt að ekki hafi verið nóg gert enn til að örva hagvöxt á svæðinu, og mikilvægt sé að sýna þolinmæði til að skapa farveg fyrir langvarandi stöðugleika og uppbyggingu.