Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir veikar forsendur fyrir þá aflandskrónueigendur sem seldu krónur sínar á genginu 190 krónur fyrir hverja evru fyrir ári síðan að höfða mál. Þeir aflandskrónueigendur sem höfnuðu því tilboði býðst nú að borga 137,5 krónur fyrir hverja evru og hafa frest fram til 15. júní til að bregðast við því tilboði. Taki þeir því hefur þolinmæði þeirra skilað 38 prósent viðbótargengishagnaði. Alls óljóst er þó hvort eftirstandandi aflandskrónueigendur muni taka tilboðinu, í ljósi þess að krónan er enn að styrkjast og skráð gengi hennar gagnvart evru er nú um 110 krónur. Það þýðir að ef aflandskrónueigendurnir myndu skipta krónunum sínum í banka – sem þeir mega ekki enn samkvæmt gildandi fjármagnshöftum á eignir þeirra – myndu þeir fá um 25 prósent fleiri evrur fyrir en samkvæmt tilboði Seðlabankans.
Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna, spurði Benedikt af því í skriflegri fyrirspurn á Alþingi hvort hann teldi að þeir aflandskrónueigendur sem seldu eignir sínar á 190 krónur fyrir hverja evru í útboði í fyrrasumar gætu átt „rétt á bótum eða tilboði um sömu kjör og boðin eru aflandskrónueigendum nú, þ.e. 137,50 kr. fyrir eina evru?“ Hann spurði Benedikt enn fremur hvort hann liti svo á að yfirlýsingar hans í ræðu á þingfundi 13. mars síðastliðinn gætu styrkt stöðu stöðu þeirra sem leystu krónur sínar út á evrugenginu 190 krónur? Í þeirri ræðu sagði Benedikt að mögulegt hefði verið að þurrka upp aflandskrónuvandann í kringum útboðið sem Seðlabankinn hélt um mitt síðasta ár, með því að lækka gengið aðeins. Það hafi ekki verið gert og nú sé hægt að sjá það glöggt að skynsamlegt hefði verið að gera það. „Í ráðuneytinu heyri ég að líklegt sé að á þeim tíma hefði verið hægt að þurrka snjóhengjuna svonefndu upp að mestu leyti ef gengið hefði verið á milli 165 og 170 krónur á evru. Nú sjáum við glöggt að skynsamlegt hefði verið að ljúka viðskiptunum á því gengi. Þáverandi stjórnvöld ákváðu að gera það ekki. Kannski vegna þess sjónarmiðs að með því hefði verið gert allt of vel við aflandskrónueigendur. Eftir á sjá allir að Íslendingar hefðu grætt mjög mikið á því að ljúka dæminu þá, en menn misstu af því tækifæri.“
Benedikt segir nú í svari sínu til Björns Vals að engir útreikningar hafi verið gerðir á því hversu mikið Íslandi hefði getað grætt á slíku tilboði og að það hafi ekki „verið sjálfstætt markmið að hámarka hagnað í viðskiptum við þá aðila sem hafa sætt takmörkunum vegna haftanna heldur leysa greiðslujafnaðarvanda“. Ef öllum aflandskrónueigendur hefði verið boðið 165-170 krónur á evru í fyrrasumar, og þeir hefðu allir tekið því tilboði, hefði gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands farið fyrir neðan þá stærð sem talin er nauðsynleg „til að tryggja að almenn losun fjármagnshafta raskaði ekki efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika.“
Benedikt segir enga rannsókn vera hafna á því af hverju Bjarni Benediktsson, þá fjármála- og efnahagsráðherra og nú forsætisráðherra, hafi ekki „nýtt tækifærið“ í fyrra til að leysa vandann á þeim forsendum sem Benedikt talaði um í ræðu sinni 13. mars. Hann sagði enga slíka rannsókn heldur vera í farvatninu.
Benedikt segir afar veikar forsendur vera fyrir þá aflandskrónueigendur sem ákváðu að fara út á því gengi sem Seðlabankinn bauð þeim í fyrra að höfða mál til greiðslu bóta vegna þess sem síðar var gert eða sagt í afnámsferlinu. „Þátttaka í gjaldeyrisútboði Seðlabankans var valfrjáls og enginn aflandskrónueigandi var skuldbundinn til að taka þátt í því frekar en hann vildi. Þessir valkostir og fyrirsjáanleiki í málinu gera það að verkum að afar veikar forsendur eru til að höfða mál til greiðslu bóta vegna þess sem síðar var gert eða sagt í afnámsferlinu enda hefur aldrei legið fyrir nein staðfesting á því að þeir aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní 2016 myndu síðar í afnámsferlinu verða leystir undan sínum takmörkunum á verri kjörum en þeim sem boðin voru sumarið 2016.“