Tekjur ríkissjóðs af vöru- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, bifreiðagjaldi og vörugjöldum af ökutækjum hækkuðu um átta milljarða króna á milli áranna 2013 og 2016 á verðlagi hvers árs. Þær voru um 36 milljarðar króna árið 2013 en um 44 milljarðar króna í fyrra. Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um markaðar tekjur til vegamála.
Ekki eru allar tekjur ríkissjóðs af vöru- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, bifreiðargjaldi og vörugjöldum markaðar tekjur sem eiga að renna til vegagerðar. Það þýðir að einungis hluti þeirra fer til Vegagerðarinnar sem nýtir það fjármagn m.a. í viðhald og nýframkvæmdir. Í svari Benedikts kemur fram að markaðar tekjur til Vegagerðarinnar á árinu 2013 hafi verið um 15,1 milljarður króna en um 17,8 milljarðar króna í fyrra. Það þýðir að um 40 prósent þeirra tekna sem ríkið aflar af með vöru- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, bifreiðargjaldi og vörugjöldum séu markaðar tekjur sem renna til vegagerðar. Til viðbótar kemur árlegt framlag úr ríkissjóði til Vegagerðarinnar. Það var í fyrra 7,4 milljarðar króna, sem er um þremur milljörðum króna meira en það var í krónum talið árið 2013. Samtals voru því fjárframlög ríkissjóðs til Vegagerðarinnar á árinu 2016 – þ.e. beint framlag og markaðar tekjur – 25,1 milljarðar króna í fyrra. Það þýðir að tæplega sex af hverjum tíu krónum sem renna í ríkiskassann vegna þeirra tekna sem ríkið aflar með vöru- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, bifreiðargjaldi og vörugjöldum renna til vegagerðar. Upphæðin hefur vaxið hratt á síðustu árum. Heildarframlagið var 18,6 milljarðar króna árið 2013.
Samkvæmt svari ráðherra er þeim tekjum sem renna til Vegagerðarinnar varið til „ almenns reksturs, viðhalds og stofnkostnaðar Vegagerðarinnar“. Á árinu 2016 fóru 9,4 milljarðar króna í almennan rekstur Vegagerðarinnar, 6,1 milljarður króna í viðhald, 11,1 milljarðar króna í stofnkostnað og 10,3 milljarðar króna í framkvæmdir. Um 766 milljónir króna fóru í „annað“.
Gríðarleg uppsöfnuð þörf
Fjárfesting í vegakerfinu hérlendis hefur ekki fylgt hefðbundinni þörf né aukningu á álagi á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að árið 2015 var fjárfesting í vegum og brúm helmingi minni en hún var árið 1995. Vinstri stjórnin sem sat við völd 2009-2013 taldi að það væru ekki til peningar til að fjárfesta í vegakerfinu og sú sem sat á síðasta kjörtímabili taldi ekki nauðsynlegt að forgangsraða í slíkar fjárfestar.
Afleiðingin er sú, samkvæmt úttekt Greiningardeildar Arion banka frá því seint á síðasta ári, að uppsöfnuð þörf á fjárfestingum í vegakerfinu sé yfir 23 milljarðar króna vegna tímabilsins 2011-2015. Í ljósi þess að of lítið var fjárfest í fyrra líka má ætla að sú tala sé komin nær 30 milljörðum króna nú.
Arion banki reiknaði sína áætluðu uppsöfnuðu fjárfestingaþörf út frá fjölgun bifreiða sem nota íslenska vegakerfið. Þar skiptir aukning ferðamanna mestu máli, en þeim hefur fjölgað úr 500 þúsund í um 2,3 milljónir á örfáum árum. Þeirri aukningu hefur fylgt stóraukið álag á vegakerfið. Árið 2005 voru rétt tæplega 3.900 bílaleigubílar skráðir á Íslandi. Á næstu tíu árum fimmfaldaðist hann. Þá eru ótalinn allur sá fjöldi stærri fólksflutningsbifreiða sem bæst hafa við íslenska bílaflotann vegna fjölgunar ferðamanna.