Kári Stefánsson gagnrýnir stjórnvöld harðlega í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag, og segir allt benda til þess að stjórnarflokkarnir ætli sér að svíkja öll kosningaloforð sem veitt voru fyrir kosningar.
Sérstaklega nefni Kári að ljóst sé á fimm ára áætlun ríkisfjármála, fyrir 2018 til 2022, sem Alþingi hafi samþykkt, að ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ætli sér að svíkja flest ef ekki allt sem þjóðin á skilið, bað um og var lofað fyrir kosningar. „Hún virðist staðráðin í að vinna keppnina um það hvað sé versta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins,“ skrifar hann meðal annars.
Hann segir þó að lesendur geti mögulega huggað sig við það, að líklega séu stjórnarflokkarnir skárri en stjórnarandstaðan. „Hvar eru tillögur stjórnarandstöð- unnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, til minnkunar á muninum á þeim sem eiga og eiga ekki, að heilbrigðu bankakerfi og til þess að takast á við árekstra hagsmuna samfélagsins og hagsmuna þeirra sem samfélagið hefur kosið til þess að stjórna sér? Hvar er stjórnarandstaðan? Skyldi hún halda að hún sé að ferja okkur inn í betri heim og að leiðin liggi í gegnum Vaðlaheiðargöngin? Það er eins gott fyrir hana að gera sér grein fyrir því að í þá ferð fer hún ein. Það fylgir henni enginn. Að lokum ráð til lesandans: þegar þú fyllist örvæntingu út af vesöld ríkisstjórnarinnar mundu að þetta hefði getað verið verra,“ segir Kári.