Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar, Kaup ráðuneyta á sérfræðiþjónustu, kemur fram að kaup á sérfræðiþjónustu hafi í mörgum tilfellum „ekki verið í fullu samræmi við lög, reglur og leiðbeiningar stjórnvalda” í ráðuneytunum. Ekki voru gerðir löggildir samningar um þjónustuna, val á verksala var oft ógagnsætt og rammasamningar vannýttir. Enn fremur virtu ráðuneytin ekki alltaf uppboðsskyldu á kaupum á stórum verkefnum.
Á meðal þeirra atvika sem Ríkiendurskoðun gerir athugasemd við er ógagnsæi í vali ýmissa ráðuneyta á ráðgjafa, þar á meðal Siv Friðleifsdóttur fyrir velferðarráðuneytið, Björgvin G. Sigurðsson fyrir menntamálaráðuneytið og Tryggva Þór Herbertsson fyrir fjármálaráðuneytið. Öll þrjú eru fyrrverandi þingmenn.
Fjármálaráðuneytið stærsti kaupandinn
Á árunum 2013-2015 keyptu ráðuneytin sérfræðiþjónustu fyrir u.þ.b. 2,5 milljarða króna, en árlegur kostnaður hækkaði stöðugt úr 700 milljónum upp í milljarð á tímabilinu. Aðkeypt sérfræðiþjónusta ráðuneyta fellur að mestu leyti undir þrjá flokka: Lögfræðiþjónustu, aðra sérfræðiþjónustu og rekstrarráðgjöf. Mynd að neðan sýnir hvernig kaup á sérfræðiþjónustu dreifast eftir ráðuneytunum, en fjármála- og efnahagsráðuneytið eyddi langmestu í aðkeyptri sérfræðiþjónustu á tímabilinu.
Í úttektinni kemur fram að við kaupum á sérfræðiverkefnum hafi ráðuneytin oft aðeins haft samband við einn aðila sem gjarnan hafi sinnt verkefnum fyrir ráðuneytið áður. Slík vinnubrögð séu ekki í samræmi við ákvæði laga um jafnræði og gagnsæi.
Ekkert ráðuneytanna fór í útboð eða örútboð innan rammasamninga á tímabilinu vegna kaupa á sérfræðiþjónustu þar sem þau telja það vera of dýrt og tímafrekt fyrir verkefnin, sem oftast væru lítil og sérhæfð. Auk þess töldu ráðuneytin sig oft ekki hafa tíma eða mannskap til að kynna sér ítarlega rammasamninga fyrir hvert verkefni. Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við þá röksemdarfærslu og telur aukna notkun heimilda innan rammasamningsins muni leiða til aukinnar hagkvæmni við kaup á þjónustu.
Þar sem rammasamningur hafi ekki verið endurnýjaður árið 2013 hvetur Ríkisendurskoðun innkaupastofnun ríkisins, Ríkiskaup, á að skýra verkferla um kaup opinberra aðila á lögfræðiþjónustu, hvort sem það er með nýjum rammasamningi eða með öðrum hætti.
Meðal þeirra athugasemda sem
Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við eru:
- Kaup sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytisins á
lögfræðiaðstoð Bonafide-lögmanna og Lex ehf.
vegna endurskoðunar á löggjöf um fiskveiðistjórnun,
en þau voru utan rammasamninga.
- Kaup fjármála- og efnahagsráðuneytisins á lögfræðiþjónustu Juris slf. vegna aðstoðar í þjóðlendumálum, en samningur um þjónustuna er ekki í samræmi við leiðbeiningar sem ráðuneytið sjálft beini til annarra.
- Kaup
velferðarráðuneytisins á lögfræðiþjónustu Láru Áslaugu Sverrisdóttur lögmann
til að vinna að úrskurðum fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála.
Enginn samningur var gerður fyrir þjónustuna, en hún kostaði 41,4 milljónir
króna.
- Kaup forsætisráðuneytis
og fjármálaráðuneytis á ráðgjöf fyrirtækisins Analytica áhættu- og fjárfestingaráðgjöf ehf.
vegna þjóðhagslegra áhrifa höfuðstólslækkunar verðtryggðra fasteignalána og
afnáms verðtryggingar. Þótt Analytica hafi verið innan rammasamninga voru
þeir ekki nýttir við kaupin.
- Kaup velferðarráðuneytisins á þjónustu Ráðabótar ehf. vegna könnunar á upplýsingamiðlun
milli sveitarfélaga vegna veitingu réttinda til einstaklinga. Hvorki var gerður
samningur né kostnaðaráætlun og ekki var ákveðið um gjald þjónustunnar.
- Ógagnsæi
í vali ýmissa ráðuneyta á ráðgjafa, þar á meðal Siv Friðleifsdóttur
fyrir velferðarráðuneytið, Björgvin G.
Sigurðsson fyrir menntamálaráðuneytið og Tryggva Þór Herbertsson fyrir
fjármálaráðuneytið.
Viðskiptum komið á með tölvupósti
Lögmannsstofan Juris var tekin til sérstakrar skoðunar í úttektinni vegna umfangsmikilla viðskipta við fjármála-og efnahagsráðuneytið. Á tímabilinu 2013-2015 greiddi ráðuneytið stofunni alls 107 milljónir króna, þar af 92 milljónir vegna mála um eignarhald á þjóðlendum. Samkvæmt ráðuneytinu á samningurinn um þjóðlendumál að hafa komist á með tölvupóstssamskiptum starfsmanna ráðuneytisins og lögmannsstofunnar árið 2006. Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við hvernig staðið hafi verið að samningsgerð og kaupum á þessu verkefni og ráðleggur ráðuneytinu að gera formlegan samning. Fjármálaráðuneytið fari með málefni opinberra innkaupa og ættu vinnubrögð þess í þeim málum að vera til fyrirmyndar.
Í kjölfar úttektarinnar kom fram yfirlýsing frá Fjármálaráðuneytinu um að samningur við lögmannsstofuna Juris sé í endurskoðun. Ráðuneytið tekur undir ábendingu Ríkisendurskoðunar, en telur þó að hagkvæmni, gæði þjónustu, jafnræði seljenda, gagnsæi og verðsamanburður hafi verið tryggður í umræddum viðskiptum við Juris.