Almenna leigufélagið, sem
á um 1.300 íbúðir og er í eigu sjóða í stýringu hjá Gamma, metur fasteignasafn
sitt á um 38 milljarða. Íbúðir
Heimavalla eru metnar á um 41
milljarð en frekari kaup á fasteignum
á þessu ári, til viðbótar við þær 2.020
sem þetta stærsta leigufélag landsins
á, gætu aukið virði eignasafnsins í 50
milljarða.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Almenna leigufélagsins voru íbúðir þess metnar á 29,8 milljarða í árslok 2016. Í lok mars samþykkti Samkeppniseftirlitið svo kaup félagsins á BK eignum ehf. og runnu þá 360 fasteignir í eignasafnið til viðbótar. „Við höfum engin plön um að stækka félagið enda er það í þægilegri stærð varðandi endurfjármögnun og skráningu á markað,“ segir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, í viðtali við Fréttablaðið.
Leigufélagið Heimavellir var rekið með ríflega tveggja milljarða hagnaði í fyrra og átti fasteignir upp á 40,7 milljarða, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins er stefnt að frekari stækkun eignasafnsins þannig að það muni við lok árs nema nær 50 milljörðum.
Fasteignamat íbúða landsins í fyrra, samkvæmt nýbirtum upplýsingum Þjóðskrár, var 4.980 milljónir króna, eða tæplega 5 þúsund milljarðar króna. Heildaríbúðaeign leigufélaganna tveggja nemur því um 1,6 prósent af heildinni.