Tveir starfshópar sem skipaðir voru til að vinna að tillögum til úrbóta vegna ábendinga í í skýrslu starfshóps um umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu Íslendinga á aflandssvæðum eru á lokametrunum í vinnu sinni. Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Niðurstöður skýrslunnar voru meðal annars þær að það hafi orðið stökkbreyting á flæði fjár til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili. Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 nemur einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Tveir hópar skipaðir
Fjármála- og efnahagsráðuneytið skipað starfshópanna tvo 10. febrúar síðastliðinn í kjölfar þess að skýrslan, sem hafði verið tilbúin mánuðum saman, var loks birt. Þeim var falið að vinna að útfærslu úrbóta vegna ábendinga sem fram komu í skýrslu starfshóps um umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu Íslendinga á aflandssvæðum. Annar hópurinn fjallaði um umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap, ásamt því að gera tillögur um hvernig megi minnka svarta hagkerfið. Hinum hópnum var falið að fjalla um þann hluta skýrslunnar sem sneri að milliverðlagningu, þar með talið faktúrufölsun.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans í febrúar sagði að um sé að ræða fyrstu áfanga í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar gegn skattundanskotum og skattsvikum. „Önnur atriði úr skýrslu starfshópsins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum eru enn til skoðunar í ráðuneytinu.“
Kjarninn spurði sérstaklega um hvort til stæði að skoða ábendingar sem fram komu í skýrslunni sem snúa að fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Í svari frá ráðuneytinu segir að þetta sé eitt þeirra atriða sem enn væri til skoðunar í ráðuneytinu.
Skrifar undir fjölþjóðasamning gegn skattsvikum
Í dag var enn fremur greint frá því að Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, muni undirrita fyrir hönd Íslands fjölþjóðasamning sem miðar að því að stemma stigu við skattundandrætti og skattsvikum með misnotkun tvísköttunarsamninga. Yfir 100 ríki hafa gerst aðilar að samningnum og undirrita 68 þeirra hann í dag í tengslum við ráðherrafund Efnahags- og framafarastofnunarinnar (OECD) sem haldinn er í París.
Í frétt ráðuneytisins segir að undanfarið hafi ýmis skref verið stigin hér á landi í baráttunni gegn skattundandrætti og skattsvikum, svo sem með löggjöf um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum og starfshópi sem lagði mat á umfang eigna og umsvif Íslendinga á aflandssvæðum, sem og mögulegt tekjutap hins opinbera sem af slíku leiðir.