Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur þverbrotið það ferli sáttar sem Ólöf Nordal, fyrirrennari hennar í starfi, hafði leitt fram varðandi lagaumgjörð og inntak nýs millidómstigs. Hún hefur gengið á skjön við þann anda sem ríkti á fyrri stigum málsins. „Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endann á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“ Þetta segja Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður flokksins, í grein sem þær skrifa saman á vef Vinstri grænna.
Í greininni er fjallað um nýliðinn þingvetur með harðorðum hætti. Á meðal þess sem þær taka á er það sem Katrín og Svandís kalla „lokaafrek ríkisstjórnarinnar“, skipan fimmtán nýrra dómara við nýtt millidómsstig, Landsrétt. Í grein þeirra segir: „Dómsmálaráðherra vék þar verulega frá tillögu dómnefndar og færði fjóra aðila sem metnir voru í hópi fimmtán hæfustu umsækjenda niður og færði upp fjóra aðra, upphaflega með þeim rökum að hún vildi meta dómarareynslu þyngra en dómnefnd hefði gert en í þeim rökstuðningi sem síðar var lagður fram vísaði ráðherrann einnig til kynjasjónarmiða og hefur í fjölmiðlum bent á formenn stjórnmálaflokkanna sem ábyrgðaraðila fyrir þeim sjónarmiðum.“
Grafalvarlegt í lýðræðissamfélagi
Katrín og Svandís segja að Vinstri græn hafi haldið til haga þeim sjónarmiðum að sérstakt tillit yrði tekið til jafnréttislaga við skipan dómara í Landsrétt. Þau lög byggi hins vegar á því að umsækjendur séu jafn hæfir. Dómsmálaráðherra hafi ekki fært nægjanleg rök fyrir því að þannig hafi verið hvað varðar þær breytingar á tilnefningarlistanum sem hún gerði. „Því ber að halda til haga að ráðherrann einn ber ábyrgð á sinni tillögu og getur ekki vísað á aðra í því. Minnihlutinn óskaði eftir því að málinu yrði frestað og ráðherra og Alþingi fengju aukinn tíma til að fara yfir þetta mikilvæga mál. Við því var ekki orðið og neytti meirihlutinn því aflsmunar sinna til að samþykkja fimmtán nýja dómara við Landsrétt í bullandi ágreiningi þar sem augljóslega hafði ekki gefist tími til að fara yfir málið með fullnægjandi hætti.“
Katrín og Svandís segja það grafalvarlegt í lýðræðissamfélagi að svo naumur meirihluti skuli fara fram með slíkum hætti þegar um er að ræða eina grein hins opinbera valds, dómsvaldið, og skipan þess. „Í tíð fyrri ráðherra málaflokksins var mikil áhersla á að leiða fram lagaumgjörð og inntak nýs dómstigs í sátt. Nýr ráðherra hefur nú þverbrotið það ferli, gengið fram á skjön við þann anda sem ríkti á fyrri stigum málsins. Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endann á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“