Læknafélag Íslands undirritaði nýjan kjarasamning við fjármálaráðuneytið fyrr í vikunni, án þess að málið færi til ríkissáttasemjara. Frá þessu greindi RÚV í kvöld, en formaður Læknafélagsins segir í samtali við RÚV að nú séu uppi betri aðstæður til þess að semja en voru uppi áður.
Kjaradeila lækna árið 2014 og fram á árið 2015 var hörð, og lauk henni ekki fyrr en eftir verkfall og harðar deilur. Þá sömu læknar um meira en 20 prósent hækkun launa, en sá samningur rann út í apríl á þessu ári.
Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands, segir það skýrast af því að aðstæður hafi verið sérstakar síðast. „Samningar okkar höfðu verið lausir í mjög langan tíma og það hreyfðist ekki í viðræðunum. Í öðru lagi höfðu launakjör lækna dregist verulega aftur úr viðmiðunarhópum árin á undan,“ segir Þorbjörn í samtali við RÚV.
Kjarasamningurinn hefur ekki verið kynntur læknum ennþá en félagsmenn Læknafélagsins hafa lokaorðið um hvort samningurinn taki gildi.