Jón Þór Ólafsson og Birgitta Jónsdóttir fulltrúar Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vilja að nefndin rannsaki þátt Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í því ferli þegar hún gerði tillögu að 15 dómurum við Landsrétt, sem Alþingi síðan samþykkti.
Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Jón Þór að málinu sé alls ekki lokið, og það sé margt í því sem þurfi að rannsaka betur og fullkanna hvort ráðherra hafi farið að lögum.
Ástráður Haraldsson, sem var einn umsækjenda um starf dómara við Landsrétt, hefur stefnt íslenska ríkinu vegna skipunar á dómurum við Landsrétt, og hefur lögmaður hans krafist flýtimeðferðar. Eins og Kjarninn greindi frá, þá var Ástráður á meðal þeirra 15 sem sérstök nefnd mat hæfasta meðal umsækjenda, en dómsmálaráðherra gerði fjórar breytingar á lista nefndarinnar.
Í stefnu Ástráðs á hendur íslenska ríkinu er gerð miskabótakrafa upp á eina og hálfa milljón króna. Þá er einnig gerð sú krafa að ákvörðun dómsmálaráðherra verði gerð ógild, og bótaskylda viðurkennd.
Dómararnir 15 sem voru skipaðir eru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.