Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að Evrópusambandið (ESB) sé tilbúið að hefja viðræður um útgöngu Bretlands úr ESB.
Í viðtali við breska ríkisútvarpið segir Merkel að hún telji ekkert í vegi fyrir því að hefja viðræðurnar um útgöngu Bretlands í samræmi við fyrri tímaáætlun, en samkvæmt henni þá eiga viðræðurnar að hefjast 19. júní.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, boðaði til þingkosninga með skömmum fyrirvara í vor í þeirri von, að fá sterka umboð til að leiða landið í viðræðunum við ESB. Kosningarnar fóru illa fyrir Íhaldsflokkinn, sem May leiðir, og tókst honum ekki að fá 326 þingsæti, sem þarf til að tryggja meirihluta í þinginu.
May hefur þegar fundað með Elísabetu II Englandsdrottningu og óskað eftir umboði til þess að mynda nýja minnihlutastjórn íhaldsflokksins. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn í Norður-Írlandi hefur samþykkt að ræða samstarf við íhaldsmenn um að verja minnihlutastjórnina falli og kjósa með lykilmálum svo þau fái framgang.
Fjölmörg erfið mál bíða úrslausnar, en ekkert er þó stærra en úrsögn Bretlands úr ESB og margir einstakir málaflokkar sem tengjast útgöngunni, sem fara þarf í gegnum. Kostnaðurinn við útgöngu gæti orðið mikill fyrir Breta, og mun koma í ljós þegar samningaviðræðurnar hefjast, hverjar kröfurnar verða af beggja hálfu.
Skipting þingsæta í kosningunum var sem hér segir:
- Íhaldsflokkurinn – 318 (-12)
- Verkamannaflokkurinn – 261 (+31)
- Frjálslyndir demókratar (LD) – 12 (+3)
- Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) – 35 (-19)
- Lýðræðislegi sambandsfl. (DUP) – 10 (+2)
- Sjálfstæðisflokkur Bretlands (UKIP) – 0 (0)
- Græningjar – 1 (0)
- Aðrir – 12