Starfshópur Fjármálaráðherra kynnti fyrr í dag þrjár mögulegar leiðir um mögulegan aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka á blaðamannafundi fyrr í dag. Stofnaður verður annar starfshópur til þess að vega og meta hverja leið fyrir sig, en starfshópurinn mun skila niðurstöðum sínum í haust.
Í skýrslu starfshópsins kemur fram mat á kostum og göllum á aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Þar var markmið skýrslunnar að lágmarka áhættu af fjárfestingabankastarfsemi alhliða banka. Starfshópurinn var skipaður sérfræðingum frá ráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.
Nefndir voru kostir og gallar þess að hafa fjárfestingabanka og viðskiptabanka undir sama þaki, en við það skapast víxláhætta og freistnivandi stjórnenda fjármálafyrirtækjanna. Hins vegar er stærðarhagræði falið í samspilinu sem eykur stöðugleika banka og gerir þjónustu þeirra fjölþættari. Einnig var tekið fram að hömlur á fjárfestingabankastarfsemi í alhliða bönkum gætu ýtt undir vöxt skuggabankastarfsemi.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segir ákvörðunina um hvort aðskilja ætti viðskiptabanka og fjárfestingabanka alltaf vera pólitíska og ekki hlutverk nefndarinnar. Hlutverk hópsins hafi fyrst og fremst verið að leggja fram kosti og galla og athuga hvort aðrar leiðir séu færar. Hins vegar sagðist ráðherra finna fyrir ágætis samhljómi innan Alþingis, allir flokkar vilji draga úr áhættu.
Þrjár mögulegar leiðir um frekari kerfisbreytingar á bankakerfinu voru tilkynntar á fundinum:
- Fyrsta leiðin felur í sér að byggt verði á þeim kerfisumbótum sem nú þegar hafa átt sér stað eftir fjármálahrunið 2008 eða séu nú þegar í þróun. Nokkrar breytingar á lögum um bankastarfsemi séu í farvatninu, þar á meðal nýr reikningsskilastaðall og endurskoðun á ýmsum Basel-reglum
- Önnur leiðin er fullur aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingabanka að erlendri fyrirmynd. Þar yrðu eigin viðskipti bönnuð ásamt fjárfestingum og lánveitingum til tiltekinna sérhæfra sjóða, en starfsemin þó heimiluð tengdu félagi. Fjárfestingafyrirtæki þyrftu að uppfylla varfærniskröfur á eigin grundvelli. Tengsl félaga yrðu einnig takmörkuð. Tekið var fram að umrædd leið fæli að öllum líkindum í sér meiri kostnað en hinar leiðirnar vegna eftirlits.
- Í þriðju leiðinni yrði fjárfestingabankastarfsemi áfram heimiluð, að því gefnu að umfang hennar yrði ekki stærra en fyrirframákveðið hlutfall og að áhættu sem af henni stafar verði mætt með fullnægjandi hætti. Þegar umrætt hlutfall milli viðskiptabanda og fjárfestingabanka er náð skulu fjármálafyrirtæki skila áætlun um úrbætur eða hætta starfsemi.
Benedikt segir að skipaður verði starfshópur sérfræðinga sem muni vinna úr niðurstöðum þessarar nefndar og leggja niðurstöður sínar fyrir fyrir fyrsta nóvember.