Hópur fyrrverandi starfsmanna Actavis freistar þess nú að ganga frá kaupum á lyfjaverksmiðju fyrirtækisins í Hafnarfirði en eigandi hennar er ísraelska samheitalyfjafyrirtækið Teva.
Talið er að
kaupverðið geti verið í kringum 15
milljónir evra, jafnvirði um 1.700
milljóna íslenskra króna miðað við
núverandi gengi, en vonir standa til
að hægt verði að ganga frá kaupunum
á allra næstu vikum.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag. „Á meðal þeirra sem leiða hópinn
eru Stefán Jökull Sveinsson, fyrrverandi
framkvæmdastjóri þróunarsviðs
Actavis á heimsvísu, Torfi
Rafn Halldórsson, eigandi íslenska
lyfja- og heilbrigðisvörufyrirtækisins
Williams & Hall, Bolli Thoroddsen,
fyrrverandi sérfræðingur hjá Actavis
Group, og Sigurgeir Guðlaugsson,
fyrrverandi framkvæmdastjóri
Novator Healthcare og Novator Partners,
en hann stýrði jafnframt samruna
og yfirtökum Actavis á árunum
2003 til 2006,“ segir í Markaðnum.
Á meðal fjárfesta sem leitað hefur verið til er Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, fyrrverandi forstjóri Actavis á Íslandi, að því er segir í Markaðnum. Það er fyrirtækjaráðgjöf Virðingar ásamt erlendum ráðgjafa sem leiðir söluferlið en formlegar viðræður við fjárfestahópinn hófust fyrir um mánuði. ViðskiptaMogginn greindi frá því þann 4. maí síðastliðinn að tveir fjárfestahópar væru að bítast um að kaupa verksmiðjuna.
Lyfjafyrirtækið Allergan, þáverandi móðurfélag Actavis á Íslandi, tilkynnti í júní 2015 um þá ákvörðun að verksmiðjunni í Hafnarfirði yrði lokað og á fjórða hundrað störf myndu tapast.