Isavia áætlar nú að 1.500 ný störf verði til á Keflavíkurflugvelli í ár. Það er nokkuð meira en í fyrri spá en alls áætlar Isavia að allt að 4.500 ný störf verði til á vellinum 2017-2020.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, en gangi þessi spá eftir, til viðbótar við mikinn vöxt í byggingariðnaði, þá mun þessi vöxtur viðhalda mikilli spennu á vinnumarkaði næstu árin.
Til marks um mikinn vöxt á Suðurnesjum, þá fjölgaði íbúum Reykjanesbæjar um 1.100 milli ára, sé miðað við stöðuna í maí síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra.
Fátt bendir til annars en að vöxtur í ferðaþjónustu verði umfram flestar spár á þessu ári. Á fyrstu mánuðum ársins var vöxturinn 56 prósent, en kortavelta ferðamanna jókst um 28 prósent.
Í fyrra komu 1,8 milljónir ferðamanna til landsins en gert er ráð fyrir að þeir verði að minnsta kosti 2,3 milljónir á þessu ári.