Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gerði öryggismál að sérstöku umfjöllunarefni í fyrstu þjóðhátíðarræðu sinni. Hann sagði heiminn standa frammi fyrir ógnum af ýmsu tagi, meðal annars vegna hryðjuverka og að varist verði að hér skapist jarðvegur fyrir þau. Einnig minnist hann á stöðu íslenskunnar í tækniheiminum, en menntamálaráðherra muni birta skýrslu þess efnis í næstu viku.
Bjarni fór um víðan völl í ræðu sinni á Austurvelli í dag. Hann minntist á þær lífskjarabætur sem átt hafa sér stað á Íslandi á undanförnum áratugum, en sama hvert væri litið hafi framfarir í velmegun okkar verið meiri en nokkurn gat órað fyrir. Enn fremur sagði ráðherrann þennan mikla árangur Íslendinga hafi orðið fyrirmynd fyrir önnur ríki í því að draga úr misskiptingu og auka velferð.
Umhverfismál komu einnig til tals í ræðunni. Forsætisráðherra minntist á úrsögn Donald Trump, Bandaríkjaforseta, úr Parísarsamkomulaginu, en allir forsætisráðherrar Norðurlandanna skoruðu á hann að hætta við þá ákvörðun. Sagði hann það skipta miklu máli að halda á lofti markmiðum samningsins og vinna ótrauð að því að draga úr skaðlegum áhrifum okkar á jörðina
Öryggismál voru ofarlega á baugi forsætisráðherra, en hann sagði það eina af frumskyldum stjórnvalda að tryggja þjóðaröryggi. Heimurinn standi frammi fyrir ógnum af ýmsu tagi, en þar beri einna hæst ótryggt ástand heimsmála, meðal annars vegna hryðjuverka.
„Hér á landi er hættustig metið í meðallagi – sem þýðir að ekki er hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálunum. Við verðum að varast að hér skapist jarðvegur fyrir hryðjuverk. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að við getum áfram verið friðsöm þjóð,“ segir Bjarni, en athygli vakti fyrr í vikunni að ákveðið var að hafa vopnaða sérsveitarmenn við hátíðarhöldin í dag.
Að lokum minntist Bjarni á breytta stöðu á vinnumarkaðnum vegna aukins fjölda sjálfvirkra starfa og stöðu íslenskunnar vegna erlendra áhrifa netvæðingarinnar. Íslenskan verði að vera valkostur í tækniheiminum og því þurfi að efla nýsköpun í máltækni. Þetta séu niðurstöðu skýrslu sem mennta- og menningarmálaráðherra muni kynna í næstu viku.