Kerstin Hesiuss, forstjóri sænska lífeyrissjóðsins AP3, hvatti í dag til þess á fundi sem Fossar Markaðir stóðu fyrir í Iðnó, að íslenskir lífeyrissjóðir myndu huga meira að fjárfestingum erlendis til þess að dreifa betur áhættu í eignasöfnum sínum.
Sagði hún að þetta væri mikilvægt mál, þó að ýmsu væri að hyggja, ekki síst hvenær rétti tíminn væri til að gera breytingar á fjárfestingustefnu lífeyrissjóða. AP3 er með um 57 prósent af eignum sínum utan Svíþjóðar.
Hlutverk lífeyrissjóða í víðu samhengi
Á fundinum var rætt um fjárfestingastefnu lífeyrissjóða á Íslandi og í Svíþjóð, en auk forstjóra AP3, voru Magnus Billing, forstjóri Alecta, og Michael Kjeller, yfirmaður eignastýringar Folksam, á meðal frummælenda á fundinum.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, flutti inngangserindi, og tilkynnti þar meðal annars um stofnun starfshóps sem á að fjalla hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífsins.
Í starfshópnum eiga sæti Gunnar Baldvinsson, formaður, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, Áslaug Árnadóttir, lögmaður og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri eTactica ehf. „Lífeyrissjóðir gegna veigamiklu hlutverki í íslensku efnahagslífi. Hlutverk þeirra er að taka við iðgjöldum sjóðfélaga og launagreiðenda, ávaxta þau og greiða ævilangan ellilífeyri eða áfallalífeyri við vissar aðstæður. Sjóðirnir greiða nú þegar meirihluta eftirlauna landsmanna en í framtíðinni mun vægi þeirra í eftirlaunagreiðslum aukast enn frekar þegar kynslóðir fara á eftirlaun sem hafa greitt 10% til 15,5% iðgjöld af heildarlaunum alla starfsævina,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu vegna þessa.
Lífeyriskerfið stækkar
Eignir lífeyrissjóða hafa aukist verulega á liðnum árum og voru samtals 3.661 milljarði í apríl síðastliðnum eða ríflega 150% af landsframleiðslu. Til samanburðar má nefna að í ársbyrjun 1998, þegar lög um lífeyrissjóði voru samþykkt, voru eignir sjóðanna 407 milljarðar og vógu 75% af landsframleiðslu. Miðað við spár er talið að stærð sjóðanna muni að hámarki nema um þrefaldri landsframleiðslu á næstu áratugum, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Vegna mikils vaxtar eru lífeyrissjóðirnir umsvifamiklir í íslensku efnahagslífi og eiga stóran hluta innlendra peningalegra eigna, sérstaklega skráðra verðbréfa. Auk þess eiga þeir verulegar eignir sem eru ekki skráðar í kauphöll, þ.á m. útlán til sjóðfélaga og hlutabréf í óskráðum fyrirtækjum.
Samkvæmt nýjustu hagtölum Seðlabanka Íslands þá eru 789 milljarðar af eignum lífeyrissjóðanna í erlendum eignum, en það nemur um 21,5 prósent af heildareignum sjóðanna. Flestir lífeyrissjóðanna hafa innan sinna samþykkta heimildir til að fjárfesta fyrir allt að 50 prósent af heildareignum erlendis, sem er hámarkmið samkvæmt lögum.
Starfshópurinn sem nú hefur verið skipaður, á meðal annars að horfa til þriggja rannsóknarspurninga í sinni vinnu, samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Þær eru:
1. Hvaða efnahagslegu og samkeppnislegu hættur felast í víðtæku eignarhaldi lífeyrissjóða í atvinnufyrirtækjum? Er æskilegt að setja reglur eða gera lagabreytingar um eignarhald og aðkomu lífeyrissjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja til að draga úr áhættu sjóðanna og tryggja samkeppni á markaði?
2. Hvert er vægi eigna lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í skráðum og óskráðum verðbréfum nú og fyrir áratug síðan og hvernig er líklegt að það þróist á næstu árum og áratugum? Er þörf á að gera ráðstafanir til að draga úr vægi lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi?
3. Hvernig hefur eignarhald fagfjárfesta í skráðum fyrirtækjum í nálægum ríkjum þróast? Getum við dregið lærdóm af umræðu innan annarra OECD-ríkja um áhættudreifingu og aðkomu lífeyris- og verðbréfasjóða að stjórnun atvinnufyrirtækja?
Bjarni fagnaði því sérstaklega, í inngangsorðum sínum, að Fossar hefðu haft frumkvæði að því að boða til fundarins um þetta mikilvægi efni. Hann minntist þess enn fremur að umræða um efnahagsmálin hefði ekki alltaf verið undir jákvæðum formerkjum í Iðnó, þar sem þar hefði verið fundað daglega á hruntímanum um alvarlega stöðu mála. Það væri hollt að minnast þess hversu mikið vatn hefði runnið til sjávar, og hversu góð staða efnahagsmála væri nú. Líklega hefði hún aldrei verið betri, og það væri einnig til marks um endurnýjaðan kraft í efnahagslífinu að nýtt fyrirtæki eins og Fossar Markaðir væru að leiða fram nýjar raddir í umræðu um stöðu efnahagsmála.