Hvatti til meiri fjárfestinga erlendis

Fjárfestingastefna lífeyrissjóða var til umræðu á fundi í Iðnó í dag, og voru íslenskir lífeyrissjóðir hvattir til þess að dreifa eignum sínum betur á erlenda markaði.

peningar
Auglýsing

Kerstin Hes­i­uss, for­stjóri sænska líf­eyr­is­sjóðs­ins AP3, hvatti í dag til þess á fundi sem Fossar Mark­aðir stóðu fyrir í Iðnó, að íslenskir líf­eyr­is­sjóðir myndu huga meira að fjár­fest­ingum erlendis til þess að dreifa betur áhættu í eigna­söfnum sín­um. 

Sagði hún að þetta væri mik­il­vægt mál, þó að ýmsu væri að hyggja, ekki síst hvenær rétti tím­inn væri til að gera breyt­ingar á fjár­fest­ingu­stefnu líf­eyr­is­sjóða. AP3 er með um 57 pró­sent af eignum sínum utan Sví­þjóð­ar.

Hlut­verk líf­eyr­is­sjóða í víðu sam­hengi

Á fund­inum var rætt um fjár­fest­inga­stefnu líf­eyr­is­sjóða á Íslandi og í Sví­þjóð, en auk for­stjóra AP3, voru Magnus Bill­ing, for­stjóri Alecta, og Mich­ael Kjell­er, yfir­maður eigna­stýr­ingar Folk­sam, á meðal frum­mæl­enda á fund­in­um. 

Auglýsing

Bjarni Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráð­herra, flutti inn­gangs­er­indi, og til­kynnti þar meðal ann­ars um stofnun starfs­hóps sem á að fjalla hlut­verk líf­eyr­is­sjóða í upp­bygg­ingu atvinnu­lífs­ins. 

Í starfs­hópnum eiga sæti Gunnar Bald­vins­son, for­mað­ur, fram­kvæmda­stjóri Almenna líf­eyr­is­sjóðs­ins, Áslaug Árna­dótt­ir, lög­maður og Egg­ert Bene­dikt Guð­munds­son, for­stjóri eTact­ica ehf. „Líf­eyr­is­sjóðir gegna veiga­miklu hlut­verki í íslensku efna­hags­lífi. Hlut­verk þeirra er að taka við iðgjöldum sjóð­fé­laga og launa­greið­enda, ávaxta þau og greiða ævi­langan elli­líf­eyri eða áfalla­líf­eyri við vissar aðstæð­ur. Sjóð­irnir greiða nú þegar meiri­hluta eft­ir­launa lands­manna en í fram­tíð­inni mun vægi þeirra í eft­ir­launa­greiðslum aukast enn frekar þegar kyn­slóðir fara á eft­ir­laun sem hafa greitt 10% til 15,5% iðgjöld af heild­ar­launum alla starfsæv­ina,“ segir í til­kynn­ingu frá for­sæt­is­ráðu­neyt­inu vegna þessa.

Andri Guðmundsson, sem starfar fyrir Fossa Markaði í Stokkhólmi í Svíþjóð, stýrði fundinum í Iðnó.

Líf­eyr­is­kerfið stækkar

Eignir líf­eyr­is­sjóða hafa auk­ist veru­lega á liðnum árum og voru sam­tals 3.661 millj­arði í apríl síð­ast­liðnum eða ríf­lega 150% af lands­fram­leiðslu. Til sam­an­burðar má nefna að í  árs­byrjun 1998, þegar lög um líf­eyr­is­sjóði voru sam­þykkt, voru eignir sjóð­anna 407 millj­arðar og vógu 75% af lands­fram­leiðslu. Miðað við spár er talið að stærð sjóð­anna muni að hámarki nema um þre­faldri lands­fram­leiðslu á næstu ára­tug­um, að því er fram kemur í til­kynn­ingu frá for­sæt­is­ráðu­neyt­inu. Vegna mik­ils vaxtar eru líf­eyr­is­sjóð­irnir umsvifa­miklir í íslensku efna­hags­lífi og eiga stóran hluta inn­lendra pen­inga­legra eigna, sér­stak­lega skráðra verð­bréfa. Auk þess eiga þeir veru­legar eignir sem eru ekki skráðar í kaup­höll, þ.á m. útlán til sjóð­fé­laga og hluta­bréf í óskráðum fyr­ir­tækj­um.

Sam­kvæmt nýj­ustu hag­tölum Seðla­banka Íslands þá eru 789 millj­arðar af eignum líf­eyr­is­sjóð­anna í erlendum eign­um, en það nemur um 21,5 pró­sent af heild­ar­eignum sjóð­anna. Flestir líf­eyr­is­sjóð­anna hafa innan sinna sam­þykkta heim­ildir til að fjár­festa fyrir allt að 50 pró­sent af heild­ar­eignum erlend­is, sem er hámark­mið sam­kvæmt lög­um.

Starfs­hóp­ur­inn sem nú hefur verið skip­að­ur, á meðal ann­ars að horfa til þriggja rann­sókn­ar­spurn­inga í sinni vinnu, sam­kvæmt til­kynn­ingu frá for­sæt­is­ráðu­neyt­inu.

Þær eru:

1. Hvaða efna­hags­legu og sam­keppn­is­legu hættur fel­ast í víð­tæku eign­ar­haldi líf­eyr­is­sjóða í atvinnu­fyr­ir­tækj­um? Er æski­legt að setja reglur eða gera laga­breyt­ingar um eign­ar­hald og aðkomu líf­eyr­is­sjóða að stjórnun atvinnu­fyr­ir­tækja til að draga úr áhættu sjóð­anna og tryggja sam­keppni á mark­aði?

2. Hvert er vægi eigna líf­eyr­is­sjóða og ann­arra fjár­festa í skráðum og óskráðum verð­bréfum nú og fyrir ára­tug síðan og hvernig er lík­legt að það þró­ist á næstu árum og ára­tug­um? Er þörf á að gera ráð­staf­anir til að draga úr vægi líf­eyr­is­sjóða í íslensku efna­hags­lífi?

3. Hvernig hefur eign­ar­hald fag­fjár­festa í skráðum fyr­ir­tækjum í nálægum ríkjum þróast? Getum við dregið lær­dóm af umræðu innan ann­arra OECD-­ríkja um áhættu­dreif­ingu og aðkomu líf­eyr­is- og verð­bréfa­sjóða að stjórnun atvinnu­fyr­ir­tækja?

Bjarni fagn­aði því sér­stak­lega, í inn­gangs­orðum sín­um, að Fossar hefðu haft frum­kvæði að því að boða til fund­ar­ins um þetta mik­il­vægi efni. Hann minnt­ist þess enn fremur að umræða um efna­hags­málin hefði ekki alltaf verið undir jákvæðum for­merkjum í Iðnó, þar sem þar hefði verið fundað dag­lega á hrun­tím­anum um alvar­lega stöðu mála. Það væri hollt að minn­ast þess hversu mikið vatn hefði runnið til sjáv­ar, og hversu góð staða efna­hags­mála væri nú. Lík­lega hefði hún aldrei verið betri, og það væri einnig til marks um end­ur­nýj­aðan kraft í efna­hags­líf­inu að nýtt fyr­ir­tæki eins og Fossar Mark­aðir væru að leiða fram nýjar raddir í umræðu um stöðu efna­hags­mála.

Meira úr sama flokkiInnlent