Fjórir fyrrverandi stjórnendur Barclays bankans í Bretlandi hafa verið ákærðir vegna neyðarfjármögnunar sem bankinn fékk árið 2008 frá fjárfestum í Katar.
Meðal þeirra ákærðu er John Varley, sem var forstjóri bankans á þessum tíma. Þrír aðrir starfsmenn bankans, Roger Jenkins, Thomas Kalaris, og Richard Boath, hafa einnig verið ákærðir.
Í yfirlýsingu frá Barclays kemur fram að bankinn vegi nú og meti kosti sína. Alls var safnað milljörðum punda frá katörskum fjárfestum til að koma í veg fyrir að ríkið þyrfti að taka yfir skuldir bankans.
Ákæran snýr að lánveitingum bankans, upp á tvo milljarða pundar, eða sem nemur um 250 milljörðum króna, sem fóru í að kaupa eigin hlutabréf í bankanum.
Eru þessar aðgerðir sagðar hafa dregið upp falska mynd af stöðu bankans, með markaðsmisnotkun, sem leiddi til þess að breska ríkið tók bankann ekki yfir, eins og annars hefði gerst.
Samkvæmt umfjöllun BBC snýr ákæran meðal annars að svikum og ólögmætri aðstoð, en háar ráðgjafagreiðslur til fjárfestana frá Katar eru meðal þess sem talið er ólöglegt í málinu.
Samtals fékk Barclays 12 milljarða punda frá Katar, til að komast hjá þjóðnýtingu, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.