Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 6,9%, síðastliðna sex mánuði hækkaði hún um 13,1% og síðastliðna tólf mánuði hækkaði hún um 23,5%, að því er fram kemur á vef Þjóðskrár. Sé mið tekið af því, þá kostar íbúð sem keypt var á 30 milljónir fyrir ári síðan ríflega 37 milljónir nú.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.
Árshækkun fasteignaverðs var lengi vel á bilinu 8-10% en hefur verðið vel yfir 20% markinu síðustu þrjá mánuði, að því er kemur fram í hagsjá Landsbankans.
Þar segir enn fremur að verðið sé nú komið yfir það sem það var árið 2007. „Verðbólga hefur verið lág og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Að undanskildum húsnæðiskostnaði hefur ríkt verðhjöðnun í hagkerfinu frá því um mitt ár 2016. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í maímánuði var þannig um 2,6% lægri en í maí 2016, þannig að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem meiri raunverðshækkun sem nemur þeirri tölu. Raunverð fasteigna hefur þannig hækkað um u.þ.b. 26,8% á einu ári frá maí 2016 til maí 2017. Raunverð fasteigna komst hæst í október 2007 en féll síðan mikið eftir það. Nú í maí er raunverðið komið 3,2% yfir hæstu stöðu á árinu 2007,“ segir í hagsjánni.