Andri Ólafsson, sem hefur verið aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins frá því í ágúst í fyrra, hefur látið að störfum hjá 365 miðlum. Andri tilkynnti samstarfsfólki sínu þetta fyrr í dag og sagði í þeirri tilkynningu að hann hafi ákveðið að þiggja starf á öðrum vettvangi. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er sá vettvangur ekki innan fjölmiðlageirans.
Andri var ráðinn aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins í ágúst í fyrra. Hann tók við starfinu af Fanneyju Birnu Jónsdóttur sem sagði því lausu nokkrum vikum fyrr eftir að gegnt því í eitt ár. Andri hefur starfað lengi hjá 365 og var áður ritstjóri Íslands í dag.
Ólöf Skaftadóttir var ráðin aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, við hlið Andra , í apríl síðastliðnum. Ólöf hefur starfað um nokkura ára skeið hjá 365 miðlum, meðal annars sem blaðamaður, umsjónarmaður helgarblaðs Fréttablaðsins og við ritstjórn á 19:10, opna glugganum á Stöð 2 sem kemur á eftir kvöldfréttum stöðvarinnar.
Miklar breytingar eru framundan innan 365. Í mars var tilkynnt um að Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, hefði undirritað samning um kaup á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Kaupverðið er 7.725-7.875 milljónir króna. Það greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum.
Sú breyting var gerð á fyrra samkomulagi að Fjarskipti eru ekki bara að kaupa ljósvaka- og fjarskiptaeignir 365 miðla. Nú bættust bæði fréttavefurinn Vísir.is og fréttastofa 365, að undanskilinni ritstjórn og rekstri Fréttablaðsins, í kaupin. Áður ætlaði Fjarskipti einungis að kaupa sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 auk fjarskiptahluta fyrirtækisins. Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar eru Bylgjan, FM957 og X-ið.
Fréttablaðið verður áfram í eigu 365 miðla. Það verður tímaritið Glamour einnig. Engar breytingar verða á eignarhaldi þess félags. Eftirlitsaðilar fara nú yfir viðskiptin og er búist við niðurstöðu þeirra síðsumars eða í haust.