Stjórnir Símans hf. og On-Waves ehf. hafa samþykkt að sameina félögin undir nafni og kennitölu Símans hf. Samþykktir Símans hf. gilda óbreyttar um hið sameinaða félag og telst Síminn hf. vera yfirtökufélag, að því er fram kemur í tilkynningu Símans til kauphallarinnar.
Samruninn miðast við 1. janúar 2017 og tekur hið sameinaða félag við öllum rekstri, eignum, skuldum, réttindum og skyldum hins yfirtekna félags frá þeim tíma.
Samruninn felur í sér að eigendur hins yfirtekna félags láta af hendi allt hlutafé þess. Hið yfirtekna félag er að 9/10 hlutum í eigu Símans hf. Síminn hf. fær því ekkert endurgjald fyrir hlutafé sitt. Tíu prósent heildarhlutafjár hins yfirtekna félags er í eigu annars aðila sem fær sem endurgjald hlutafé í Símanum hf. að nafnverði kr. 8.650.000. „Hlutafé yfirtökufélagsins breytist því ekki vegna samrunans, en Síminn hf. afhendir eigin hluti sem endurgjald til minnihluthafans,“ segir í tilkynningunni.
Gengi bréfa í Símanum er nú 4,24 en markaðsvirði félagsins er nú tæplega 40 milljarðar.
Við ákvörðun á skiptihlutfalli hlutafjár er annars vegar litið til markaðsverðs hlutafjár Símans hf. þann 16. júní 2017 og áætlaðs virðis hins yfirtekna félags.
Það er mat stjórna félaganna að með samruna félaganna aukist hagkvæmni í rekstri og reksturinn nái þannig betri ávöxtun eigin fjár, að því er segir í tilkynningunni.
Eiginfjárstaða Símans er sterk en félagið er með 35 milljarða í eigin fé, en heildareignir nema um 63 milljörðum króna.