Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hann muni ekki leggja áherslu á tillögu starfshóps á hans vegum sem lagði til að tíu þúsund og fimm þúsund króna seðlar yrðu teknir úr umferð til að sporna gegn skattsvikum. Starfshópurinn var annar tveggja sem skilaði nýverið skýrslum til ráðuneytisins um aðgerðir gegn skattaundanskotum og svarta hagkerfinu. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins sagði að öllum tillögum hópanna yrði hrint í framkvæmd.
Tillagan um að setja frekari skorður varðandi notkun reiðufjár, meðal annars með því að taka stærstu seðlanna úr umferð, hefur verið harðlega gagnrýnd, jafnt af stjórnarliðum og stjórnarandstöðu. Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt tillöguna eru Sjálfstæðisþingmennirnir Teitur Björn Einarsson og Brynjar Níelsson, fjöldi þingmanna Pírata og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sem kallaði tillöguna brjálaða forræðishyggju í Fréttablaðinu í dag.
Benedikt segir að í skýrslu hópanna séu settar fram margar tillögur. Tillagan um að taka stærstu seðlana úr umferð og takmarka notkun reiðufjár sé augljóslega ekki líkleg til að ná fram. „Ég mun því ekki leggja neina áherslu á hana.“
Hann segir tillöguna einungis vera eina af mörgum og vera aukaatriði í stóra samhenginu. „Aðalatriðið er að ná tökum á skattsvikamálum og ná breiðri samstöðu um það. En þessi tillaga er ekki líkleg til þess þannig að ég mun ekki halda henni til streitu.“