Nýjar reglur um gjaldeyrismál hjá Seðlabanka Íslands gerir það að verkum að útgáfa skuldabréfa í íslenskum krónum erlendis verði ekki lengur heimil. Reglurnar voru birtar í dag en taka gildi á morgun.
Með afléttingu gjaldeyrishafta 14. Mars síðastliðinn voru takmarkanir á fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum að mestu leyti felldar niður. Síðan þá hafa heimili og fyrirtæki getað stundað gjaldeyrisviðskipti, lántöku og fjárfestingar erlendis nokkurn veginn án hindrana.
Meðal annarra fjármálagerninga sem leyfðir voru með afléttingu gjaldeyrishaftanna var útgáfa skuldabréfa í íslenskum krónum erlendis, eða svokallaðra jöklabréfa. Bréfin voru mjög vinsæl á árunum fyrir hrun og stuðluðu að mikilli skuldsetningu og innstreymi erlends gjaldeyris.
Seðlabankinn telur því rétt að bregðast við áður en skammtímakrónustaða erlendra aðila byggist up að nýju með tilheyrandi þjóðhagslegri og fjármálalegri áhættu. Reynslan hafi sýnt að fjármagnsinnflæði tengt útgáfu svokallaðra jöklabréfa gæti dregið úr áhrifamætti peningastefnunnar.
Vandi jöklabréfa liggur í því að miðlun peningastefnunnar yrði beint úr vaxtafarvegi um hinn ófyrirsjáanlega gengisfarveg, sem geti ýtt undir gengissveiflur íslensku krónunnar og kynt undir ósjálfbæra útlánaþenslu og eignaverðshækkun.
Til þess að tryggja virkni bindingarskyldunnar eftir losun fjármagnshafta er reglum um gjaldeyrismál breytt þannig að undanþága sem þær veita til afleiðuviðskipta við fjármálafyrirtæki hér á landi í áhættuvarnaskyni nái ekki til afleiðuviðskipta vegna áhættuvarna í tengslum við skuldabréfaútgáfur í íslenskum krónum erlendis.
Til viðbótar eru gerðar nokkrar breytingar á reglunum sem þrengja gildissvið undanþága sem veittar voru með afléttingu gjaldeyrishaftanna. Auk þess bætast við ákvæði um tilkynningarskyldu fjármálafyrirtækja og annarra sem stunda fjármagnsviðskipti til Seðlabanka Íslands um tilteknar fjármagnshreyfingar í innlendum og erlendum gjaldeyri.
Í tilkynningu Seðlabankans segir að reglurnar taki gildi á morgun, 27. Júní.