Elsa Ágústsdóttir, markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, segir stöðu Swipp alltaf hafa verið ljósa þegar samstarfið var undirritað. RB samdi við Swipp þann 22. Júní, en félagið var í slitameðferð í fyrra og hefur fært alla viðskiptavini sína inn í annað félag.
Félagið Swipp hóf slitaferli í lok síðasta árs þegar eigendur þess höfðu ákveðið að félagið myndi hætta að starfa sem greiðsluþjónustuveitandi. „Nýlega ákváðu hins vegar eigendur Swipp að taka félagið úr afskráningarferli og breyta viðskiptamódelinu, enda hafi komið í ljós að mikill áhugi væri á undirliggjandi tækni á öðrum mörkuðum.“ Rekstrarfyrirkomulag fyrirtækisins hefur þó breyst, en Swipp er bara með söluskrifstofu í dag.
Aðspurð af hverju RB sé að taka í notkun lausn sem danskir bankar ákváðu ekki að nota segir Elsa hana aðallega vera vegna þess að hversu hratt sé hægt að aðlaga hana að íslenskum markaði. Hún sé einnig hönnuð frá upphafi með það í huga að hún geti þjónustað mörg fjármálafyrirtæki í einu. Ástæða þess að dönsku bankarnir hafi hætt við samstarf við Swipp sé sú að allir danskir bankar ákváðu að sameinast um eina greiðslulausn á seinasta ári, en samkeppnisfyrirtæki Swipp, MobilePay, hafi verið valið í staðinn fyrir Swipp.
Elsa segir stöðu Swipp alltaf hafa verið ljósa og samningurinn sem gerður var fyrir helgi hafi verið góður fyrir báða aðila.
Kjarninn birti frétt fyrr í dag þar sem ranglega var haldið fram að Swipp væri gjaldþrota félag. Raunin er hins vegar sú að það hafi verið í slitameðferð, en fréttin hefur nú verið uppfærð.