Douglas Sutherland, hagfræðingur á vegum OECD, segir Airbnb virka sem öryggisventill fyrir ferðamannaiðnaðinn. Þetta kom fram á blaðamannafundi fulltrúa OECD og fjármálaráðherra á Arnarhváli í gær.
Á blaðamannafundinum voru niðurstöður úr skýrslu OECD um efnahagsástandið á Íslandi kynntar, en þar er meðal annars gerð grein fyrir vaxandi verðlagi á húsnæðismarkaði. Samkvæmt skýrslunni má skýra hátt húsnæðisverð með framboðsskorti á íbúðum vegna of lítillar fjárfestingar og ógnarhraða vaxtar ferðamannaiðnaðarins.
Hækkun á húsnæðisverði er talið áhyggjuefni í skýrslunni, þar sem það er talið auka verðbólguþrýsting hér á landi, sem haldist þó lág vegna utanaðkomandi aðstæðna. Einnig hafi húsnæðisverð orðið hærra en lágtekjufólk ráði við, jafnvel fyrir verðhækkun undanfarinna missera hafi kostnaðarbyrði húsnæðis meðal lágtekjufólks hafi verið ein sú hæsta á Íslandi meðal OECD-landa.
Jafnvel fyrir nýlegar verðhækkanir á íbúðamarkaði var kostnaðarbyrði vegna húsnæðis meðal lágtekjufólks ein sú hæsta meðal OECD-landa. Hins vegar er það mat skýrslunnar að framboðsaukning húsnæðis sé í vændum og komi til með að létta á þeirri spennu sem ríkir á markaðnum.
Aftur á móti þykir áhyggjuefni að útleigjendur Airbnb- íbúða greiði tiltekna skatta. Í sumum löndum sjái fyrirtækið sjálft um að innheimta þá til yfirvalda, en það sé ekki enn gert hér á landi. Skýrsluhöfundar leggja til að tímatakmörkun á útleigu íbúða, svokölluð 90 daga regla, verði endurskoðuð ef raunin er sú að hún leiði til minni samkeppni á markaðnum.
Douglas Sutherland, hagfræðingur OECD-hópsins, sagði heimagistingu vera heppilega fyrir hagkerfið þar sem hún virkaði sem öryggisventill fyrir ferðamannaiðnaðinn. Sveigjanlegt eðli heimagistingar geri hana betur í stakk búna til að taka á móti breytilegum fjölda ferðamanna. Þar að auki hafi hótel stærri vistspor og geta skapað sjáanleg „ör” í umhverfið ef ferðamannafjöldinn minnkar.
Á blaðamannafundi í gær sagði hópur á vegum OECD það vera Íslandi að ákveða hvort banna ætti heimagistingar í miðborg Reykjavíkur, þar sem aðrar ástæður getu legið að baki því en efnahagslegar. Hins vegar bentu þeir á að fyrirtæki líkt og Airbnb hefðu í grunninn góð áhrif á hagkerfið. Jákvæð viðhorf í garð fyrirtækisins má einnig finna í skýrslu OECD, en þar segir að bönn á heimagistingu, líkt og sett hafa verið í Barcelona, séu íþyngjandi.