Ávöxtun stærstu sjóða landsins, í innlendum hlutabréfum, hefur batnað á undanförnum mánuðum, samhliða upptakti á mörkuðum, en þrír af fjórum stærstu hlutabréfasjóðunum eru þó enn í umtalsverðum mínus í ársávöxtun. Stefnir ÍS 15, sem er upp á 38,1 milljarð króna, hefur verið með neikvæða ávöxtun upp á 8,54 prósent á undanförnu ári, Landsbréf - Úrvalsbréf, sem er upp á 13,5 milljarða, með neikvæða ávöxtun upp á 11,38 prósent og Landsbréf - Öndvegisbréf,upp á 5 milljarða, með neikvæða ávöxtun upp á 12,24 prósent.
Það sem skýrir neikvæða ávöxtun er meðal annars mikil lækkun á markaðsvirði Icelandair, en sjóðirnir eiga stóra eignarhluti í félaginu.
Af þeim ellefu innlendu hlutabréfasjóðum, sem birta ávöxtun sína á vef Keldunnar, er ÍV hlutabréfasjóður, sjóður Íslenskra verðbréfa, nú með bestu ávöxtunina en hún er 11,84 prósent. Stærð sjóðsins er upp á 1,7 milljarða.
Þar á eftir koma sjóður Júpiters - Innlend hlutabréf - með ávöxtun upp á 10,88 prósent og GAMMA: Equity, með ávöxtun upp á 10,29 prósent. Sjóður Júpiters er með heildarstærð upp á 4 milljarða en hjá GAMMA er hann 4,6 milljarðar.
Aðrir sjóðir en þeir, sem hér eru nefndir að ofan, eru með ávöxtun á bilinu 1,4 til 6,3 prósent.
Fyrir ári síðan stóð vísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins í 1787 stigum en við opnun markaða í morgun var hún í 1808 stigum, og hefur hún því hækkað um lítið eitt, undanfarið ár, eða sem nemur 1,2 prósentum.
Sé mið tekið af því hafa sex sjóðir af ellefu skilað betri ávöxtun á undanförnu ári heldur en markaðurinn. Samanlögð stærð sjóðanna er 82,6 milljarðar króna.
Uppfært: Eins og sjá má, á myndinni hér að ofan, er miðað við 23. júní í nokkrum tilvikum og svo 26. júní í öðrum. Sé miðað við sömu dagsetningu, og nýjustu upplýsingar, þá lítur myndin aðeins öðruvísi út. Ávöxtun GAMMA: Equity er þá best, og heldur dregur úr neikvæðri ávöxtun þriggja stærstu sjóðanna, sbr. myndin hér að neðan.