Þeim heimilum sem þáðu fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á árinu 2016 fækkaði um 16,3 prósent frá árinu áður. Slíkum hefur fækkað á hverju ári frá árinu 2013. Alls lækkuðu útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar um 792 milljónir króna á síðasta ári, eða um 17,6 prósent. Þetta kemur fram í hagtölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku. Í ríkisreikningi sem birtur var fyrr í þessum mánuði kemur enn fremur fram að útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslu atvinnuleysisbóta lækkuðu um 1,5 milljarða króna í fyrra og 2,5 milljarða króna árið á undan.
Á sama tíma fjölgar þeim útlendingum sem flytja til Íslands gríðarlega hratt. Í byrjun árs 2013 voru erlendir ríkisborgarar á Íslandi 21.910 talsins en eru nú 31.470. Þeim hefur því fjölgað um tæplega tíu þúsund á örfáum árum og eru nú 9,3 prósent landsmanna.
Samkvæmt þessu er engin fylgni milli þess að útlendingum hérlendis fjölgi og aukningu á fjárhagsaðstoð hins opinbera. Útlendingar virðast koma til Íslandi til þess að vinna.
Flestir í Efra-Breiðholti, sárafáir í Garðabæ
Á síðasta ári einu saman fluttu hingað til lands 7.859 erlendir ríkisborgarar en 3.644 slíkir fóru frá landinu. Það þýðir að erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 4.215 á árinu 2016. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að Vinnumálastofnun áætlaði að um fjögur þúsund manns muni koma erlendis frá í gegnum starfsmannaleigur eða sem útsendir starfsmenn á þessu ári.
Í ágúst í fyrra greindi Kjarninn frá því að erlendir ríkisborgarar væru orðnir yfir tíu prósent þeirra sem greiða skatta á Íslandi. Rúmlega annar hver nýr skattgreiðandi hérlendis á síðustu árum hefur komið erlendis frá og á árinu 2015 einu saman voru 74,4 prósent allra nýrra skattgreiðenda erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum sem bættist við skattgrunnskrá landsins í fyrra voru erlendir ríkisborgarar en einn af hverjum fjórum var íslenskur ríkisborgari.
Langflestir útlendingar sem búa á Íslandi búa í höfuðborginni Reykjavík. Þar búa 12.990 erlendir ríkisborgarar og eru þeir 10,5 prósent íbúa hennar. Flestir þeirra búa í Breiðholtinu, en innflytjendur eru 29,2 prósent íbúa Efra-Breiðholts og 22,3 prósent íbúa í Bakkahverfinu.
Útlendingar eru hins vegar sjaldséðari í sumum bæjarfélögum en öðrum. Í Garðabæ, þar sem búa t.d. 15.410 manns, eru einungis 580 erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að 3,7 prósent íbúa Garðabæjar eru með erlent ríkisfang. Það er marktækt mun lægra hlutfall en hjá hinum stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Í Hafnarfirði eru erlendir ríkisborgarar 8,8 prósent íbúa og í Kópavogi 7,7 prósent.
Verða fjórðungur landsmanna
Hagstofan birti í lok júní í fyrra nýja mannfjöldaspá sem nær til ársins 2065. Í miðspá stofnunarinnar var gert ráð fyrir að Íslendingar væru orðnir 442 þúsund í lok spátímabilsins, en þeir eru nú 340 þúsund.
Samkvæmt spánni munu fleiri flytja til landsins en frá því næstu hálfu öldina. Þar sagði: „Fjöldi aðfluttra verður meiri en brottfluttra á hverju ári, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu munu halda áfram að vera fleiri en þeir sem flytja til landsins.“
Gangi spá Hagstofunnar eftir verða erlendir ríkisborgarar orðnir 107 þúsund talsins árið 2065, eða um fjórðungur þjóðarinnar.