Algjör kúvending hefur orðið á viðhorfi fólks í heiminum til Bandaríkjanna, eftir að Donald J. Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna, 8. nóvember í fyrra.
Þetta kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC í dag, og er vitnað til rannsóknar Pew Research Center en könnunin náði til 40 þúsund einstaklinga frá 37 ríkjum.
Svo virðist sem íbúar utan Bandaríkjanna hafi litla sem enga trú á Trump, þegar kemur að því að gera gagn fyrir heiminn, en viðhorf til Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, var hins vegar allt annað.
Í könnuninni kemur meðal annars fram að tæplega 88 prósent af íbúum Suður-Kóreu hafi haft mikla trú á Obama, en sama hlutfall er 17 prósent þegar það er spurt um trúna á góðum verkum Trump fyrir heiminn.
Svipaða sögu er að segja af öðrum löndum, ef frá eru talin Ísrael og Rússland. Í Ísrael eru 56 prósent á því að Trump sé góður fyrir þróun í heiminum, en sama hlutfall var 49 prósent hjá Obama. Í Rússlandi hefur orðið algjör kúvending á viðhorfinu, því 53 prósent telja að Trump sé líklegur til að gera það gott í þágu heimsins, en hlutfallið var aðeins 11 prósent hjá Obama.