Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku, hefur sagt starfi sínu lausu. Hann mun láta af störfum hjá fjárfestingabankanum í ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram á Vísi.
Sigurður hefur starfað hjá Kviku, og fyrirrennurum þess banka, í áratug.
Miklar væringar hafa verið í kringum Kviku undanfarið. Í síðustu viku var tilkynnt að stjórn Kviku hefði gert kauptilboð upp á 2.560 milljónir króna í allt hlutafé Virðingar. Ef af kaupunum verður er stefnt að því að sameina félögin. Tilboðið gerir ráð fyrir að greitt verði fyrir hlutinn með reiðufé. Kauptilboðið gildir til kl. 16:00 þann 30. júní næstkomandi. Ef samþykki að lágmarki 90 prósent hluthafa Virðingar fæst fyrir þann tíma er stefnt að boðun hluthafafundar í Kviku um miðjan júlí.
Skammt er síðan að Virðing undirritaði samning um kaup á ÖLDU sjóðum. Verði tilboði Kviku til hluthafa Virðingar hf. tekið, er sá samningur háður endanlegu samþykki Kviku og hluthafa Öldu.